136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stefna í ríkisfjármálum og verðmat nýju bankanna.

[14:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Miðað við orðaskipti hæstv. fjármálaráðherra áðan við aðra þingmenn virðist sem hæstv. fjármálaráðherra, sá annars geðþekki maður, hafi farið aðeins öfugum megin fram úr rúminu. Ég ætla mér engu að síður að spyrja hann nokkurra spurninga og minna hann á að frá 1. febrúar — og þó að honum þyki erfitt að heyra það — hefur ekki bara krónan fallið um 16% — verkin áttu að tala, þið munið það — 8.000 manns til viðbótar á atvinnuleysisskrá frá 1. febrúar og mörg hundruð fyrirtæki hafa orðið gjaldþrota frá 1. febrúar. Ég bið hæstv. fjármálaráðherra að spara mér þuluna um Sjálfstæðisflokkinn enn og aftur, [Háreysti í þingsal.] ég bið hann að spara mér ádeilu ... [Háreysti í þingsal.]

Það er svo skrýtið að það er eins og fólk vilji ekki tala um framtíðina, (Gripið fram í.) það er eins og fólk vilji ekki horfast í augu við veruleikann og horfast í augu við framtíðina. (Gripið fram í.) Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra — og ég er kannski ekki að gera honum mikinn greiða með því af því að ég vitna í auglýsingu frá samstarfsflokki hans og hann getur kannski ekki mikið borið ábyrgð á þeim flokki eða þeirri auglýsingu. Engu að síður stendur m.a. að núna sé komin fram ábyrg stefna í ríkisfjármálum. Ég hef ekki heyrt um hana, við vitum að það verða skattahækkanir en við höfum ekki fengið að ræða neitt um ríkisfjármál. Ég óska eftir því að fá að vita hvar ég get nálgast þessa ábyrgu ríkisfjármálastefnu.

Síðan er auðvitað stóra fréttin í auglýsingunni. Þar stendur:

„Verðmati nýju bankanna lokið sem fyrst samhliða endurfjármögnun.“

Þetta er náttúrlega stórfrétt. Miðað við margar stórar fréttir núna yfir páskana [Háreysti í þingsal.] held ég að þessi hefði átt að rata í fréttir. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað líður því að við fáum að sjá verðmatið á nýju bönkunum sem er algjört lykilatriði til þess að fyrirtækin fari að fúnkera þannig að við komum í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja og förum loksins að halda utan um heimilin (Forseti hringir.) sem þessi ríkisstjórn hefur ekki gert?