136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við heyrðum hv. þm. Björn Bjarnason segja að hann mundi koma hér upp eins oft og þurfa þykir til að koma í veg fyrir að það verði nokkurn tímann sett á stjórnlagaþing á Íslandi.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að ég átti nú von á því að Sjálfstæðisflokkurinn mundi ef til vill taka upp aðra taktík eftir páskahelgina þar sem sá flokkur hefur fengið smávegis ágjöf um helgina. Ég hélt kannski að þessi rosti mundi eitthvað lækka í flokknum og að Sjálfstæðisflokkurinn mundi leggja málþófið af.

En það hefur svo sannarlega sýnt sig núna að fyrsti ræðumaður eftir páskahelgina, hv. þm. Björn Bjarnason, hótar því að koma hér upp eins oft og þurfa þykir til að koma í veg fyrir að það verði nokkurn tíma sett á stjórnlagaþing.

Þetta veldur mér gífurlegum vonbrigðum. Ég hef átt sæti á Alþingi um nokkurt skeið, virðulegur forseti, og er búin að horfa framan í það að Alþingi hefur ekki haft burði til þess að endurskoða stjórnarskrána svo nokkru nemi. Það er okkar bjargfasta trú í Framsóknarflokknum að koma þurfi á stjórnlagaþingi til þess að gera drög að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin svo fær að kjósa um. Þetta stjórnlagaþing á að vera kosið af fólkinu í landinu.

Ég sé það núna, virðulegi forseti, að málþófsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, ætlar ekki að leyfa þessu fram að ganga. Mjög stutt er í alþingiskosningar og eru vaxandi líkur á því að málþófsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, vinni þessa baráttu af því að sá flokkur getur staðið hér endalaust fram að kjördegi, og það vill auðvitað enginn. Það verður að leyfa fólkinu í landinu að hitta þingmenn til (Forseti hringir.) að geta tekið afstöðu í kosningum. Ég sé því ekki fram á annað en að málþófsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, (Forseti hringir.) sé að vinna þennan slag hér.