136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:28]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel fyrst og fremst að þetta snúist hvorki um Sjálfstæðisflokkinn né mig heldur snýst þetta um heiður Alþingis. Það sem ég hef sagt í þessu máli er að ég mun ekki standa að því að svipta Alþingi stjórnarskrárvaldinu. Það er hægt að halda stjórnlagaþing með öðrum hætti en að svipta Alþingi því valdi.

Ég tel að þetta mál snúist um heiður þingsins og stöðu þess í þjóðfélaginu. Ég mun flytja þær ræður sem ég þarf til þess að Alþingi verði ekki sett niður með þessum hætti. Ég mun ekki gefast upp fyrir orðum eins og hv. þingmaður flutti og hún getur ekki vænst þess að ég skipti um skoðun um stöðu Alþingis.

Ég mun ekki gefa eftir rétt Alþingis til að vera stjórnarskrárgjafi. Ég tel það einkennilegt viðhorf hjá þingmönnum sem eru að yfirgefa þennan þingsal að þeir ætli að skilja við þingið þannig að svipta Alþingi þessu valdi.

Ég veit að hv. þingmaður sem talaði hér síðast er í framboði að nýju og hún hefur þá væntanlega tækifæri til þess á komandi þingi að flytja aftur tillögu um að þingið sé svipt þessu valdi. En á meðan ég sit á þingi og hef málfrelsi í þingsalnum mun ég standa gegn því að Alþingi verði svipt umræddu valdi. Ég mun flytja þær ræður sem þarf til þess hvort sem það er að nóttu eða degi því ég ætla ekki að láta þetta yfir Alþingi ganga.