136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sé það svo að varðstaða um stjórnarskrárvald Alþingis sé svanasöngur tíma sem eru að hverfa verð ég að segja að þá fagna ég því að vera að fara af Alþingi. Sé það virkilega svo að það sem er að gerast hér í þingsalnum, og það sem við erum að veita vörn gegn, þ.e. því að Alþingi verði svipt stjórnarskrárvaldinu, sé svanasöngur tíma sem er að hverfa fagna ég því að vera að fara af Alþingi. Ég fagna því að þurfa ekki að vera hér í salnum og standa oftar í þeim sporum að verja heiður Alþingis fyrir þingmönnum hér í salnum sem vilja svipta Alþingi þessu valdi. Mér finnst dæmalaust á þessum dögum rétt fyrir kosningar að heyra að menn telji það sér til ágætis — sem eru þó að bjóða sig fram til þingsins — að þeir séu að bjóða sig fram til að svipta þingið þessu valdi. Það eru líka mikil öfugmæli.

Ég spyr: Hvers vegna eru þingmenn yfirleitt að sækjast eftir að sitja í þessum þingsal ef þeir bera ekki meiri virðingu fyrir þinginu en kemur fram í orðum hv. síðasta ræðumanns? Ég er stoltur af því ef það er kallað svanasöngur gamals tíma, þær ræður sem ég er að flytja hér, til þess að verja heiður Alþingis. Ég verð að segja það við hv. kjósendur, ef einhverjir þeirra eru að hlusta á okkur hér: Kjósið ekki þá til þings sem ætla að svipta þingið þessu valdi að kosningum loknum. Gætið ykkar á því, ef þið berið virðingu fyrir okkar elstu og virðulegustu stofnun, að kjósa ekki fólk til þings sem ætlar að svipta Alþingi þessu valdi.