136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að þegar gripið er til sérstakra aðgerða vegna sérstakra aðstæðna er auðvitað brýnt að vanda sig og ganga ekki of langt. Það er alveg ljóst að þær hugmyndir sem urðu að því frumvarpi sem hér liggur fyrir um að Fjármálaeftirlitið gæti fallið frá því að vísa málinu til lögreglu, eiga rætur að rekja til bankahrunsins sl. haust. Í minnisblaði frá 3. nóvember sl., frá viðskiptaráðuneytinu til dómsmálaráðuneytisins, sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og Björn Bjarnason gerðu að umtalsefni þegar þau ræddu embætti hins sérstaka saksóknara sem þurfti auknar valdheimildir, er vísað til í 6. gr. — og þetta er sem sagt frá því í byrjun nóvember sl. Í frumvarpsdrögunum um hinn sérstaka saksóknara er fjallað um að viðkomandi þurfi ekki að sæta ákæru þótt upplýsingar eða gögn leiði líkur að broti hans sjálfs ef hann lætur upplýsingarnar sjálfviljugur í té. Í lok 6. liðar á minnisblaðinu segir:

„Velta má fyrir sér hvort rök séu til þess að hafa sambærilegt ákvæði á sviði fjármálamarkaðar.“

Það er því alveg ljóst að þessi hugmynd sprettur upp í kjölfar bankahrunsins og það er ósköp eðlilegt.

Ég tek undir það með hv. þm. Jóni Magnússyni og það hefur komið fram að hv. viðskiptanefnd er sammála um að þrátt fyrir það er ekki rétt að víkja frá meginreglum um saksókn og ákæruvald.