136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[21:16]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Það hefur verið merkilegur snúningur á dagskrá þingsins í dag. Það hefur brugðið svo við og út af þeim vana sem hér er jafnan eða oftast að fara eftir röð mála á dagskránni, í stað þess höfum við hoppað til og frá. Þetta hefur ekki þótt góð lenska, a.m.k. hin síðari ár, þótt vafalaust megi finna dæmi um að það hafi verið skautað eitthvað til og frá á dagskránni. Við byrjuðum á óundirbúnum fyrirspurnum sem var fyrsta mál á dagskrá, fórum svo í 6. mál á dagskrá sem vissulega var mikilvægt mál sem var nauðsynlegt að koma áfram, ég verð að viðurkenna það. Þaðan fórum við í 2. mál á dagskrá, það var atkvæðagreiðsla, þá í 3. mál sem var atkvæðagreiðsla. Þá var farið í 7. málið sem er núverandi umræðuefni og það mál sem hér er til umræðu og á dagskrá, breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn. Það verður að segjast alveg eins og er og mun sjálfsagt koma betur fram hvers vegna í ræðu minni á eftir, að þetta er ekki mikilvægasta málið sem er á dagskrá og hefði verið skynsamlegra fyrir okkur að fara fyrst í önnur mál sem eru mikilvægari. Bæði þau sem eru á dagskránni og þau sem ekki eru á dagskránni. Þá vil ég fyrst nefna Helguvík eða 8. mál á dagskrá, heimild til samninga um álver í Helguvík og síðan þingsályktunartillögu um Kyoto og þingsályktunartillögu um hvalveiðar og ég er sosum ekkert klár á því hvaða skoðun hæstv. forseti hefur á Kyoto-tillögunni en ég veit að í hjarta sínu er hann sammála okkur um hvalveiðitillöguna. Ég vissi að ég fengi bros frá honum fyrir þetta.

Herra forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu er um margt merkilegt en kannski sérstaklega fyrir það að mjög góð samstaða er um það í viðskiptanefndinni og það hefði reyndar komið fyrir fyrr í dag ef það hefði verið ágæt samstaða meðal nefndarmanna um mál sem hér hafa verið rædd. En þó er sérstaklega mikil samstaða í þessu máli og hefur reyndar verið tekið til þess að þetta mál hafi aðra sérstöðu líka, að það er vegna þess hversu miklar breytingar hv. nefnd hefur lagt til á frumvarpi ráðherrans. Það er frekar óvenjulegt og mig rekur ekki minni til þess að svo miklar breytingar hafi verið gerðar á frumvarpi í þinginu frá því á árdögum umhverfisnefndar, þegar hún varð fyrst til, árið 1991. Þá var lagður grunnur, að segja má, að þeirri umhverfislöggjöf sem við búum við í dag. En þá gerðist það nokkrum sinnum, það mætti eiginlega segja hvað eftir annað, að hv. nefnd umturnaði þeim frumvörpum sem fram komu. Það var kannski eðlilegt þar sem þá var verið að, eins og ég sagði áðan, leggja grunninn að þeirri umhverfislöggjöf sem hér er og margt var í gangi á umhverfissviðinu, t.d. stórar ráðstefnur í gangi, stórir alþjóðlegir samningar sem verið var að undirrita og ýmislegt nýtt sem kom upp og var áhugavert að skoða og færa í lagalegan búning, jafnvel þótt einhverjar öðruvísi hugmyndir hefðu kannski komið frá hæstv. ríkisstjórn. Það er því út af fyrir sig ekkert nýtt að gerðar séu breytingar á frumvörpum frá hæstv. ráðherrum.

Þetta frumvarp er bandormur svokallaður, í einum átta köflum. Sjö af þeim eru sérlög á sviði fjármálalöggjafar og áttundi kaflinn er með breytingartillögu við almenn lög um eftirlit með fjármálastarfsemi, þar sem verið er að gera breytingu sem leiðir af breytingum sem eru í hinum sjö köflunum. Þessi sjö kaflar eru allir eins, það eru tvær greinar í hverjum kafla og þær fjalla um sitt hvort efnisatriðið. Það má segja að breytingartillögur nefndarinnar snúi að því að fella út annað þessara efnisatriða.

Fyrra efnisatriðið fjallar um að Fjármálaeftirlitið geti fellt niður stjórnvaldssektir á hendur lögaðilum eða einstaklingum sem verða fyrstir til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varða sektum. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að heimilt sé að lækka sektir vegna aðila sem hafa frumkvæði að því að láta í té upplýsingar sem leiða til þess að mál upplýsist. Seinni greinin í hverjum kafla fjallar hins vegar um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að kæra ekki brot til lögreglu hafi fyrirtæki eða einstaklingur haft frumkvæði að því að láta í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varða geta sektum eða fangelsi. Þetta er, eins og fram hefur komið, byggt á samsvarandi löggjöf um Samkeppniseftirlitið og eins og er vísað til sérstaks saksóknara.

Hv. þm. Jón Magnússon gerði athugasemd við að í fyrri greininni í hverjum kafla, í fyrri málsgrein þeirrar greinar, væri verið að tala um aðila sem væru fyrstir til að láta í té upplýsingar. Síðan hafa verið gerðar athugasemdir við að tillögurnar sem í þessum greinum felast séu ekki sambærilegar við greinar í löggjöf um Samkeppniseftirlitið vegna þess að þegar um samkeppnislagabrot er að ræða þá sé um fleiri en einn aðila að ræða en í tilfelli brota vegna fjármálagjörninga sé sjaldnast um fleiri en einn aðila að ræða og því sé ekki hægt að bera þetta saman. Þar af leiðandi held ég að „fyrstur“ til að láta Fjármálaeftirliti í té upplýsingar skipti ekki svo ýkja miklu máli, ef einungis er um einn brotaaðila að ræða, það er þá hvort sem er ólíklegt að um einhverja fleiri sé að ræða. Ég held því að ástæðulaust sé að hafa miklar áhyggjur af því orðalagi.

Afstaða umsagnaraðila var dálítið merkileg í þessu máli. Það voru nánast allir umsagnaraðilar neikvæðir, sérstaklega hvað varðar seinni greinina í hverjum kafla. Þó með einni undantekningu en það var ríkisskattstjóri. Sérstaklega voru saksóknararnir sem komu á fund nefndarinnar og sendu inn skriflegar umsagnir neikvæðir og töldu fráleitt að bera aðstæður í fjármálakerfinu saman við samkeppnislagabrotin og töldu ekki síður ástæðulaust að nota lagagreinar er varða sérstakan saksóknara sem fyrirmynd þar sem þær væru tímabundnar og væru algjörlega nýjar og gengju langt frá því eins langt og um væri að ræða í þeim greinum sem þetta frumvarp gengur út á.

Það má eiginlega segja, svo maður fjalli aðeins nánar um efnisatriðin, að hér sé um að ræða að aðili sem gerst hefur brotlegur geti með því að gefa sig fram fyrstur eða bara einn, ef einungis er um hann einan að ræða eins og sennilegt er í flestum tilfellum á þessu sviði, að hann geti komið og sagt: Heyrðu, ég braut af mér og af því að ég kem og segi ykkur frá því, þá á ekki að refsa mér. Þetta er, eins og fram hefur komið, algert einsdæmi á þessu sviði. Samkeppnislagaréttlætingin gengur út það að þar séu fleiri aðilar samsekir og þá er um að ræða aðila sem upplýsa um brot margra aðila og þau brot eru þess eðlis að verði þau upprætt þá verður um að ræða breytta hegðun þessara aðila á markaði sem leiðir til meiri samkeppni og þá væntanlega að þeir sem voru brotlegir en ekki sögðu frá munu taka út hegningu. Þetta er það sem menn eiga við þegar talað er um „whistleblower“. Þegar um er að ræða einn aðila sem gerst hefur brotlegur þá er raunverulega ekki um neinn „whistleblower“ að ræða, þá sleppur sá aðili með skrekkinn í sínu máli og sleppur við refsingu.

Í tilfelli saksóknarans er um að ræða að hann getur lagt þetta til við ríkissaksóknara en hinn sérstaki saksóknari tekur ekki ákvörðunina sjálfur heldur tekur ríkissaksóknarinn þá ákvörðun. Í tilfelli þessa frumvarps er um að ræða eftirlitsstofnun. En á heildina litið, þegar um er að ræða ákvæði sem ganga út á að milda refsingu eða fella niður refsingu vegna þess að aðilar taka þátt í því að upplýsa mál, þá er það almennt á hendi dómarans. Það er dómarinn sem ákveður það eftir efnisatriðum máls og út af fyrir sig getur byggt það á málflutningi saksóknarans að viðkomandi hafi hegðað sér á þann hátt að réttlætanlegt sé að hann hljóti milda eða enga refsingu fyrir brotið. Þá er ákvörðunin tekin á allt öðru stigi.

Niðurstaða nefndarinnar, eftir að hafa farið mjög ítarlega yfir þetta, var sú að gera greinarmun á þeim tveimur greinum sem eru í hverjum kafla. Að leggja ekki til að möguleika eftirlitsins til þess að breyta sektum eða fella niður sektir vegna minni háttar brota verði breytt en hins vegar leggja til að seinni greinin verði felld niður þar sem það væri í þversögn við það sem Fjármálaeftirlitinu er almennt skylt að gera, að vísa meiri háttar málum, meiri háttar brotum, til lögreglu og koma þannig í veg fyrir þá þversögn sem mundi verða á milli þessara greina. Þar af leiðandi er ekki um það að ræða að viðkomandi aðili geti, með því að segja frá broti sínu, komist hjá því að lögreglan rannsaki það og eftir atvikum að hann verði kærður ef brotið varðar við lög.

Það er hins vegar svolítið merkilegt að stofnun eins og Fjármálaeftirlitið og viðskiptaráðuneytið og hæstv. ríkisstjórn, þar með talinn hæstv. viðskiptaráðherra og ríkisstjórnin skuli leggja þetta til. Sérstaklega þegar við skoðum umsagnirnar, hvað þær eru margar og neikvæðar gagnvart því að þetta gerist og ekki síst er það undantekningin um ríkisskattstjóra, að hann skuli vera jákvæður gagnvart þessu. Þetta getur vel verið að það sé vegna þess að það er að einhverju leyti munur á því hvernig þessir aðilar starfa og að það sé þegar um er að ræða Fjármálaeftirlitið og skattyfirvöld, kannski sérstaklega skattyfirvöld, lögð meiri áhersla á upplýsa málin og klára málin heldur en að um raunverulega refsingu sé að ræða. Því að sérstaklega í tilfelli skattyfirvalda og ríkisskattstjórans þá snýst þetta um að upplýsa málin og klára málin og þá þarf viðkomandi að standa skil á sköttum sínum og gjöldum og með álagi. Það skýrir kannski þá jákvæðu umsögn, að það er raunverulega um öðruvísi umhverfi að ræða.

Samkeppnislagaumhverfið er líka enn annað. Eins og ég fór yfir áðan þá er jafnan um fleiri en einn aðila að ræða, það eru nokkrir aðilar sem standa saman að brotum og það er verið að brjóta upp þá hegðun á markaði sem hefur þær breytingar í för með sér. Það var sem sagt niðurstaða nefndarinnar að það ætti ekki við í málum eins og þessum að Fjármálaeftirlitinu væri heimilað að kæra ekki meiri háttar brot til lögreglu og þar með fría viðkomandi aðila á því að geta átt von á refsingu. Ég held að raunverulega hafi verið gengið of langt í þessa átt með því sem lagt er til í þessu frumvarpi, ekki vegna þess að um illan hug hafi verið að ræða heldur hafi menn ekki alveg sést fyrir í viljanum um að upplýsa málin og fá niðurstöður í þau gagnvart því síðan hvaða aðra hagsmuni er um að ræða, sérstaklega í samanburði við samkeppnislögin. Það eru alls ekki sömu hagsmunir í húfi og því er rétt að í þessum málum, eftir sem áður, verði það í höndum lögregluyfirvalda, saksóknara og að endingu dómstólanna, að ákvarða hvort réttlætanlegt sé að milda eða fella niður refsingu ef við komandi aðilar hafa sýnt það eða verið samstarfsfúsir í því að upplýsa þann verknað sem um er að ræða.