136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[22:00]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Erindi mitt í þennan ræðustól er að upplýsa hv. þm. Pétur Blöndal um að það er langt í frá að unnið hafi verið hratt að því frumvarpi sem við ræðum. Ég upplýsti það áðan að upptök frumvarpsins er að finna í bankahruninu síðasta haust og það varð í rauninni til í framhaldi af minnisblaði viðskiptaráðuneytisins sem dagsett er 3. nóvember og hefur orðið tilefni umræðna hér af öðru tilefni. Ég óttast því ekki að einhver slíkur fljótræðisbragur sé á þessu máli og að sú upptalning sé ekki tæmandi á lagabálkum sem þarna þyrfti að breyta heldur sé þvert á móti tæmandi upptalning á þeirri starfsemi á fjármálamarkaði sem Fjármálaeftirlitinu er ætlað að hafa eftirlit með.

Ég get ekki orða bundist vegna orða hv. þingmanns um seðlabanka Jóhönnu Sigurðardóttur og þau orð hv. þingmanns um að Seðlabankinn starfi nú alfarið á ábyrgð forsætisráðherra. Ég hlýt að rifja upp, herra forseti, hvernig þetta var áður en lögum um Seðlabankann var breytt. Það var einfaldlega þannig að forsætisráðherra skipaði einhendis seðlabankastjóra án auglýsingar, án tilnefninga, án umsagna og án hæfiskrafna. Þessu var öllu saman breytt og allt sett í lög um Seðlabankann. Því er miklum mun minni hætta á misbeitingu við ráðningar í þá stofnun en áður var.