136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[22:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það beinist eiginlega að tveim punktum. Hún heldur því fram að þetta sé ekki hratt unnið. Ég held að flest þau mál sem við ræðum eftir bankahrunið séu mál sem eru unnin töluvert hratt og þar á meðal þetta. Í umsögnum kom fram að menn finna ekki sambærileg ákvæði er varða fjármálamarkaði annars staðar og hefur ekki verið kannað. Hins vegar eru til sambærileg ákvæði í samkeppnisrétti eða mjög víða, en það er eins og ég gat um ekki endilega samhengi þar á milli.

Varðandi seðlabanka hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, tók ég svona til orða vegna þess að hún skipar seðlabankastjórann, aðstoðarseðlabankastjórann, peningastefnunefndina, allt saman ein. Frumvarpið um Seðlabankann var flutt af henni einni og hún barði það í gegnum þingið. Þetta er því seðlabanki hennar og hún ber alfarið ábyrgð á þeim háu stýrivöxtum sem eru í landinu í dag, sem eru óheyrilega þungbærir. Stýrivextir gáfu neikvæða ávöxtun í október, nóvember og í desember líka. Síðan urðu nokkuð góðir raunvextir, jákvæðir, 10% í janúar og febrúar, en í mars og apríl keyra þessir raunvextir stýrivaxtanna um þverbak. Þennan mánuð eru stýrivextirnir 28% raunvextir, sem er algjört einsdæmi og gerir það að verkum að enginn hvati er hjá þeim sem eiga sparifé í bönkum að taka það út og setja í áhættusaman rekstur eins og fjárfestingu í atvinnulífinu. Búið er að negla inni allt sparifé í landinu með þessum háu stýrivöxtum og ég er ekki viss um að peningastefnunefndin hafi áttað sig á því að hún var í rauninni að negla inni sparifé.