136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[22:04]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er langt í frá að háir stýrivextir á Íslandi séu uppgötvun hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, eða innleiddir af henni. Má ég minna hv. þingmann á samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í 19. gr., ef ég man rétt, sem fjallar um stýrivaxtastigið sem þar með var ákveðið og undirritað í samkomulagi af Árna M. Mathiesen, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, og Davíð Oddssyni, þáverandi seðlabankastjóra. Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé fæddur í gær, a.m.k. að hann hafi ekki komið að stjórnmálum fyrr en eftir 1. febrúar sl. þegar núverandi ríkisstjórn kom að þrotabúinu sem 18 ára stjórnarstefna þess flokks og stýritaumur hans á íslensku samfélagi skildi eftir sig.

Mig langar til að ítreka það sem ég sagði áðan að þetta frumvarp sem við ræðum á uppruna sinn í setningu laga um hinn sérstaka saksóknara. Það má rekja upphafið aftur til minnisblaðsins sem ég nefndi frá 3. nóvember sl. og málið mun hafa verið í vinnslu æ síðan.

Í minnisblaðinu segir, þar sem verið er að fjalla um heimild til sérstakrar meðhöndlunar á uppljóstrurum til handa hins sérstaka saksóknara, með leyfi forseta:

„Velta má fyrir sér hvort rök séu til þess að hafa sambærilegt ákvæði á sviði fjármálamarkaðar.“

Það er jú svo að engin önnur fordæmi hafa fundist vegna þess að það munu ekki vera önnur fordæmi. Þetta fordæmi er alveg einstakt sem hinum sérstaka saksóknara er gefið í þar til gerðum lögum. Það er líka tímabundið ákvæði sem reiknað er með að dómsmálaráðherra geti flutt frumvarp um að fest verði niður á árinu 2011.