136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[22:09]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, það er að verða svolítið þreytandi að sitja undir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stjórnað landinu einn sl. 18 ár. Því er haldið fram þegar það hentar ýmsum stjórnmálaöflum hér á Alþingi. Þegar þeim hentar að benda á það sem aflaga hefur farið er því haldið fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi einn stjórnað málum hér. Ef það er viðurkennt að eitthvað gott hafi verið gert, eins og t.d. varðandi uppbyggingu menntakerfisins, uppbyggingu samgöngukerfisins, ýmsa þætti varðandi efnahagslífið og (Gripið fram í: … ríkisstjórn.) uppgreiðslu skulda o.fl. er á það bent að Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn eigi nú ýmislegt í þeim árangri sem náðist. Samfylkingin talar gjarnan um að hún hafi einungis verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í 18 mánuði en Sjálfstæðisflokkurinn í 18 ár. En þá gleymir Samfylkingin því og hv. þingmenn hennar að Alþýðuflokkurinn, sem Samfylkingin er sprottin upp úr ásamt Alþýðubandalaginu, stjórnaði landinu 1991–1995 með Sjálfstæðisflokknum. Samfylkingin hefur því á þessu 18 ára tímabili verið í stjórn með Sjálfstæðisflokknum í einn þriðja hluta þess tíma sem um ræðir og Framsóknarflokkurinn í tvo þriðju hluta þess tíma. Mér fannst ástæða til að benda á það í upphafi ræðu minnar vegna þess að ég er orðinn býsna þreyttur á þessum málflutningi.

Nei, herra forseti, ég kom nú ekki til þess að ræða þetta mál sérstaklega heldur það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Mér fannst hins vegar ástæða til þess að víkja að þessu vegna þess að það virðist fara ansi mikið í taugarnar á sumum hv. þingmönnum sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum að slík mál séu rædd hér í ræðustól Alþingis.

Hér er til umfjöllunar býsna áhugavert frumvarp, að mínu mati, til laga um breytingar á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn. Það er eins konar bandormur sem felur í sér breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um miðlun vátrygginga, lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa og lögum um kauphallir og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Það má því segja að þetta frumvarp varði stóran hluta þeirrar löggjafar sem um fjármálamarkaðinn gilda. Ég skal gera þá játningu að ég hef ekki komið að þessu máli áður. Ég tók ekki til máls við 1. umr. um þetta málið og á ekki sæti í hv. viðskiptanefnd en engu að síður vil ég gjarnan leggja orð í belg vegna þess að ég tel að málið sé áhugavert og varði mikla hagsmuni.

Í nefndarálitinu segir að með frumvarpinu sé lagt til að við ýmis lög um fjármálamarkaðinn verði bætt ákvæðum um niðurfellingu. Með niðurfellingu er átt við að viðurlög séu milduð eða felld niður að fullu þegar lögaðili eða einstaklingur kemur sjálfviljugur fram, játar brot gegn lögum og vinnur með eftirlitsaðila að rannsókn málsins. Sjónarmiðin á bak við lagaákvæði sem þessi eru annars vegar þau að hvetja til þess að einstaklingar eða lögaðilar gefi sig fram til þess að brot gegn lögum sem varða fjármálamarkaðinn verði upplýst, í það minnsta rannsökuð. Hins vegar búa þau sjónarmið að baki þessu frumvarpi, væntanlega, að gera eftirlitskerfið skilvirkara.

Það sem vekur athygli í frumvarpinu er það sem kemur strax fram í 1. mgr. 1 gr. frumvarpsins þar sem segir að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að fjalla frá stjórnvaldssektarákvæðum á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum samkvæmt 110. gr. laganna, ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglunum. Þetta er mjög löng málsgrein en það sem vekur athygli mína er að Fjármálaeftirlitinu er heimilt að falla frá stjórnvaldssektum gagnvart þeim einstaklingi eða lögaðila sem fyrstur er til að láta þessar upplýsingar í té.

Ákvæði um niðurfellingarreglur eins og þessar eiga sér ekki fordæmi erlendis þannig að við Íslendingar erum í sjálfu sér brautryðjendur á þessu sviði. Í nefndarálitinu segir:

„Samkvæmt ákvæðum þeirra laga sem talin eru upp hér að framan“ — og ég hef hér vikið að — „metur Fjármálaeftirlitið í þeim tilvikum er brot varðar bæði stjórnvaldssektum og refsingu hvort brot skuli kært til lögreglu eða hvort því verði lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Brotum sem teljast „meiri háttar“ ber Fjármálaeftirlitinu að vísa til lögreglu, sbr. til dæmis 2. mgr. 112. gr. d laga um fjármálafyrirtæki þar sem mælt er fyrir um að brot teljist meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum, ef það er framið með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi þess. Verði frumvarpið að lögum fær Fjármálaeftirlitið heimild til að kæra slík brot ekki til lögreglu hafi einstaklingur eða lögaðili haft frumkvæði að því að láta stofnuninni í té upplýsingar eða gögn vegna brota sem geta varðað sektum eða fangelsi ef Fjármálaeftirlitið telur upplýsingarnar eða gögnin geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða ef talið er að þau séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem þegar liggja fyrir.“

Þetta er í sjálfu sér í nokkru samræmi við ákvæði sem við samþykktum hér á Alþingi og ég kom nú að vinnu við þau lög, ákvæði nýrra laga um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008. En á grundvelli þeirra laga er ríkissaksóknara heimilt samkvæmt rökstuddri tillögu frá hinum sérstaka saksóknara að ákveða að falla frá saksókn gagnvart þeim sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn. Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Heimild þessi er háð skilyrðum sem nefnd eru í 2. mgr. 5. gr. laganna, m.a. þeim að rökstuddur grunur sé um að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti.“

Í áliti okkar sem sátum í allsherjarnefnd um frumvarpið er bent á að heimild þessi sé nýmæli í réttarfarslöggjöf og eigi sér ekki fyrirmyndir á Norðurlöndum. Það sama á við um ákvæði þessa frumvarps, eins og ég gat um fyrr í ræðu minni.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að í lögum sé kveðið á um að heimilt sé að milda eða fella niður eða fara einhverjar mýkri leiðir varðandi viðurlög vegna lögbrota. Við þekkjum það t.d. varðandi umferðarlagabrot að það eru ekki mörg ár síðan lögreglunni var gert heimilt að beita sektarákvæðum eða sektarúrræðum gagnvart þeim sem brjóta gegn umferðarlögum. Það sjónarmið helgaðist einfaldlega af því að auka skilvirkni í réttarvörslukerfinu, sérstaklega gagnvart brotum sem voru tiltölulega einföld og þurftu ekki mikillar skriffinnsku við, ef svo má segja. Í öðrum lögum eins og samkeppnislögum er kveðið á um niðurfellingu, bæði til handa einstaklingum og lögaðilum, að minnsta kosti í ýmsum tilvikum. Og eins og ég sagði áðan voru samþykkt hér lög nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara, þar sem veitt er heimild til þess að fella niður saksókn gagnvart þeim aðila sem gefur sig fram, leggur fram upplýsingar sem leiða til þess að rannsókn er hafin á máli sem líklegt er að leiði til saksóknar.

Í öllum þessum tilvikum sem ég hef talið upp tel ég að sama regla eigi að gilda yfir alla sem í hlut eiga. Allir hv. þingmenn sem að þessu máli komu rita undir nefndarálitið með fyrirvara en það stingur óneitanlega í stúf að í ákvæðinu sé vikið að því og það sérstaklega tiltekið að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvæðum á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi er fyrstur til þess að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota sem geta varðað stjórnvaldssekt. Ef maður skýrir ákvæðið eins og það liggur fyrir í frumvarpinu er ekki hægt að skilja það öðruvísi en að sá sem að kemur næstur eigi ekki von á því að fá sömu meðferð gagnvart réttarvörslukerfinu, þ.e. eftirlitsstofnuninni Fjármálaeftirlitinu, og sá sem á undan honum kom. Og þá hljóta að vakna upp spurningar: Er sú regla eðlileg? Er hún eðlileg gagnvart þeim jafnræðissjónarmiðum sem við höfum viljað fylgja í íslenskum rétti, sama hvort um er að ræða stjórnsýsluna eða hvað varðar önnur réttarsvið? Er ekki eðlilegt að það sé þá litið til þess hvers eðlis þær upplýsingar eru sem um ræðir?

Ég get ímyndað mér að sú staða gæti komið upp að Fjármálaeftirlitið fengi í hendur gögn frá lögaðila eða einstaklingi sem eru þess eðlis að þau geti verið til þess fallin að varpa ljósi á brot og að sá aðili sem leggur slík gögn fram geti farið fram á það. Fjármálaeftirlitið geti þá heimilað niðurfellingu á stjórnvaldssektarákvörðunar honum til handa. Síðan kann það að gerast að einhver annar aðili komi síðar, jafnvel nokkrum dögum síðar, með gögn sem að skipta miklu meira máli fyrir það mál sem til umfjöllunar er og geti haft mun meiri þýðingu en gögnin sem bárust frá þeim aðila sem fyrstur var til þess að láta Fjármálaeftirlitinu upplýsingar í té. En samkvæmt frumvarpsgreininni eins og hún liggur fyrir í þessu frumvarpi er ekki hægt að skilja annað en að sá aðili sem var fyrri til og var með gögn í höndunum sem höfðu minni þýðingu og innihéldu ekki eins mikilvægar upplýsingar og gögnin sem sá sem á eftir kom lagði Fjármálaeftirlitinu til, fái niðurfellingu en ekki sá sem síðar kom. Upplýsingar hans skiptu þó meira máli gagnvart því að upplýsa brot sem þar væru á ferðinni.

Þetta er stílbrot, herra forseti, sem ég er ekki viss um að sé heppilegt, sérstaklega þegar litið er til þess að ekki eru nein fordæmi erlendis fyrir niðurfellingarreglum vegna brota á fjármálamarkaði eins og þeim sem hér er verið að leiða í lög. Þegar kveðið er á um slíkar ívilnandi reglur í lögum er almennt talið að þeir sem geta notið þeirra eigi að sitja við sama borð en því er ekki að heilsa í þessu frumvarpi. Ég hefði því talið, herra forseti, að það væri ástæða til þess að fara nánar yfir það atriði. Ég efast svo sem ekki um að hv. viðskiptanefnd hafi vikið að þessum þætti málsins í meðferð sinni í nefndinni en ég tel engu að síður að þetta séu málefnaleg sjónarmið og ástæða til þess að víkja sérstaklega að. Ég geri ráð fyrir að hinn vörpulegi formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, muni nú í ítarlegri seinni ræðu sinni um þetta mál víkja að þeim sjónarmiðum sem ég hef komið að.

Ég ítreka það sem kom fram í upphafi ræðu minnar að ég kem að þessu máli í fyrsta skipti í þessari umræðu en það er fyrst og fremst vegna þess að málið vekur upp ýmsar spurningar og áhuga. Þetta er löggjöf sem varðar allan fjármálamarkaðinn og er gríðarlega mikilvægt við þær aðstæður sem uppi eru að vandað sé til verka, ekki síst vegna þess að sú löggjöf sem fjármálakerfinu hefur verið gert að fylgja á síðustu árum hefur legið undir þeirri gagnrýni að vera ekki fullkomin. Þegar menn kveða á um nýmæli í löggjöf á þessu sviði er eins gott að hnýta vel alla lausa enda, hæstv. forseti.