136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[23:10]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Á dagskrá þessa fundar er til umræðu frumvarp til laga um breytingar á lögum er varða fjármálamarkaðinn. Það er út af fyrir sig ekki að undra að slíkt mál sé hér til umfjöllunar og þó fyrr hefði verið til 2. umr. En þegar litið er til þess hvernig hv. nefnd, viðskiptanefnd sem fjallaði um frumvarpið, hefur unnið að þessu máli mjög rækilega og vandlega, að því að lesa má í nefndarálitinu, er ekki við því að búast að það sé fram komið fyrr en raun ber vitni til 2. umr. í þinginu.

Eitt nefndarálit sem nefndarmenn sameinast um að flytja hér vekur athygli mína sérstaklega því það má segja að sá fáheyrði atburður gerist hér við stjórnarfrumvarp að það er nánast rústir einar eftir meðferð nefndarinnar. Þá hlýtur maður að spyrja og velta fyrir sér hvernig hafi verið staðið að þessu frumvarpi á vettvangi viðskiptaráðherra, á vegum viðskiptaráðherra sem er ekki viðstaddur umræðuna en það hefði verið fróðlegt ef hæstv. viðskiptaráðherra væri hér og gæti gert okkur grein fyrir því hvað hér er á ferðinni, að það skuli gerast að breytingar á stjórnarfrumvarpi felist í því — sem bendir til þess að á vettvangi ríkisstjórnarinnar hafi verið kastað mjög til höndum við vinnu í þessu mikilvæga máli — að 2., 4., 6., 8., 10., 12., 14. og 15. gr. frumvarpsins sem hæstv. viðskiptaráðherra mælti fyrir á sínum tíma skuli vera felldar brott. Þetta hlýtur að vekja mikla athygli í meðferð þingsins og hlýtur að velta upp mörgum spurningum um það hvernig vinnubrögð eru hjá hæstv. viðskiptaráðherra í þessu máli og þá öðrum sem að er unnið í því ráðuneyti.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins um þetta frumvarp, sem væntanlega hefur verið farið rækilega yfir hér áður, segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum er varða fjármálamarkaðinn og lagt til að bætt verði við ákvæðum um niðurfellingu. Með niðurfellingu er átt við að viðurlög eru milduð eða felld niður að fullu þegar fyrirtæki eða einstaklingur kemur sjálfviljugur fram, játar brot gegn lögum og vinnur með eftirlitsaðila við rannsókn málsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði gert kleift að lækka, fella niður sektir eða falla frá kæru til lögreglu ef fyrirtæki eða einstaklingar láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn er varða brot á lögum á fjármálamarkaði. Markmiðið með þessum breytingum er að auka skilvirkni í því að upplýsa mál er varða brot af þessu tagi.

Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.“

Þetta mat fjármálaráðuneytisins er mjög athyglisvert, að með þessu frumvarpi verði engin aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.

Þegar hins vegar litið er til umsagnar um 1. gr. frumvarpsins segir þar að skv. 1. efnismálsgrein 1. gr. frumvarpsins sé lagt til, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitinu er heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi aðili er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 110. gr. ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.“

Þetta er í upphafi 1. gr. frumvarpsins. Þetta skýrir í stórum dráttum hvað hér er á ferðinni. Það sem hins vegar gerist síðan í meðferð þessa máls er að það koma umsagnir, m.a. frá Seðlabankanum. Seðlabankastjóri hinn nýi, ásamt aðstoðarseðlabankastjóra gefa umsögn um þetta frumvarp sem hv. viðskiptanefnd hefur farið væntanlega yfir.

Þar kemur fram, með leyfi hæstv. forseta, og segir í bréfi frá Seðlabankanum:

„Á hinn bóginn hafa ekki fundist erlendis nein fordæmi fyrir slíkum niðurfellingarreglum á fjármálamarkaði.“

Með öðrum orðum þá vekur Seðlabankinn sérstaka athygli á því að hér sé verið að fara út á brautir sem ekki finnist annars staðar. Því hljótum við að spyrja þegar litið er einnig til þess að hv. viðskiptanefnd fellir nánast allt út úr þessu frumvarpi hvað viðskiptaráðherrann og hæstv. ríkisstjórn voru að fara með þessu frumvarpi. Ég hélt að það væri nóg að gera hér í þinginu þó að ekki væri verið að koma með frumvörp hér inn til þingsins sem eru skorin algjörlega burt, nánast langflestar efnisgreinar frumvarpsins og það er verið að eyða tíma þingnefndar og þingsins við að vinna í slíkum málum sem virðast ekki standast. Það er mjög þakkarvert að hv. viðskiptanefnd skuli hafa unnið svo vandlega að skoðun á þessu máli því það er alveg augljóst að þarna hafa menn verið á einhverjum algjörum villigötum á vegum hæstv. viðskiptaráðherra.

Umsögn hins sérstaka saksóknara vegna frumvarpsins er mjög athyglisverð en hann hefur sjáanlega farið mjög vandlega yfir efni frumvarpsins, Ólafur Þór Hauksson, hinn sérstaki saksóknari, sem skipaður var vegna bankahrunsins. Það er auðvitað mikilvægt að sjá af því hversu vandlega sá embættismaður vinnur. Það er ástæða til þess að vekja athygli á þeim vinnubrögðum sem hér birtast og bera þau saman við það frumvarp sem kom fram hér á þinginu og var grundvöllur að lögum um rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins. Þar var rækilegur undirbúningur og þingnefndin sem fékk það frumvarp til meðferðar fór vandlega yfir það og gerði sáralitlar breytingar. Hið sama var með frumvarpið sem lagt var fram um hinn sérstaka saksóknara, þar var ólíku saman að jafna miðað við það sem er þegar litið er til þessa frumvarps sem hér er til meðferðar. Það er rík ástæða til þess að vekja athygli á þessum vinnubrögðum og vekja athygli á því hversu vel hv. viðskiptanefnd hefur unnið í þessu máli.

Í umsögn hins sérstaka saksóknara um þetta frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn, á þskj. 610, 359. máli, segir, með leyfi forseta:

„Embætti sérstaks saksóknara barst 5. þessa mánaðar“ — þ.e. í mars — „ofanritað frumvarp frá viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar. Almennt er embættið hlynnt ákvæðum sem miða að því að styrkja heimildir eftirlitsstofnana í því skyni að auka við og styrkja heimildir og úrræði sem miða að eðlilegu og nauðsynlegu eftirliti með starfsemi einstaklinga og lögaðila.

Tillögur frumvarpsins um breytingar á þar til greindum lögum á sviði fjármálamarkaða eru þó flestar því marki brenndar að þær veita Fjármálaeftirlitinu, sem fellur undir það að vera eftirlitsstjórnvald (sbr. til hliðsjónar „kontrolletat“ í norskum rétti og Fjármálaeftirlit Noregs, „Kredittilsynet“), mun víðtækari heimildir heldur en áður hafa þekkst á þessu sviði, til að falla frá ákvörðun um viðurlög (stjórnvaldssektir) og jafnframt einnig að falla frá kæru til lögreglu, í tilfellum sem eru nánar tilgreind í frumvarpinu. Er raunar tekið fram í athugasemdum með frumvarpinu að ekki hafi fundist nein fordæmi erlendis fyrir sambærilegum heimildum til niðurfellingar og lagðar eru til með frumvarpinu en þó er vísað til þeirrar þróunar sem orðið hefur á sviði samkeppnisréttar að því er varðar eftirlit með ólögmætu samráði á samkeppnismarkaði.

Embættið telur hér ólíku saman að jafna og sá veigamikli munur er á ákvæðum að með 2. málsl. 4. mgr. 37. gr. samkeppnislaga er veitt heimild til að falla frá sektarákvörðun hafi fyrirtæki verið fyrst til að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota gegn 10. eða 12. gr. samkeppnislaga en tillögur frumvarpsins gera hins vegar ráð fyrir því að heimilt sé að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi. Eru heimildir sem ætlaðar eru Fjármálaeftirlitinu þannig miklu rýmri og taka bæði til lögaðila og einstaklinga á meðan heimildir samkeppnislaga taka eingöngu til fyrirtækja og lúta að afmörkuðum brotum, þ.e. gegn ákvæðum 10. og 12. gr. samkeppnislaga.

Þá kann jafnframt að vera ástæða til að skýra nánar þann áskilnað sem felst í því ef viðkomandi aðili er „fyrstur“ til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn. Ákvæðið kann að fela í sér þarflausa og óeðlilega afmörkun enda er jafnframt gert að skilyrði að upplýsingarnar eða gögnin vegna brota er geta varðað stjórnvaldssektum þurfa að mati Fjármálaeftirlitsins að geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum. Ekki er skýrt nánar hvers vegna áhersla er lögð á þann sem er fyrstur til að veita upplýsingar. Mun eðlilegra væri að mati sérstaks saksóknara að kveða á um þann sem „frumkvæði“ hefur að því að veita upplýsingar enda kann upplýsingagjafi sem ekki veitir eftirlitsstjórnvaldi upplýsingar fyrstur að veita mun veigameiri og þýðingarmeiri upplýsingar heldur en sá sem upplýsingar veitti fyrstur vegna tiltekins máls.

Þá telur embætti sérstaks saksóknara rétt að gera sérstakar athugasemdir við nýjar heimildir sem í frumvarpinu felast, um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að kæra brot ekki til lögreglu hafi fyrirtæki eða einstaklingur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota sem geta varðað sektum eða fangelsi telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið kveður nánar á um í reglum. Í þeim lögum sem frumvarpið varðar og starfsemi og eftirlit Fjármálaeftirlitsins tekur til er einatt um að ræða þann áskilnað að Fjármálaeftirlitinu sé skylt að vísa málum til lögreglu sé um að ræða meiri háttar brot gegn ákvæðum viðkomandi laga. Verði frumvarpið að lögum í óbreyttri mynd má segja að stigið hafi verið það stóra skref að veita Fjármálaeftirlitinu heimild til þess að stjórna því alfarið hvaða brot á lögum er varða fjármálamarkaði og starfsemi fjármálafyrirtækja verði rannsökuð af lögreglu og sæti þannig ákærumeðferð af hálfu ákæruvaldsins. Að mati sérstaks saksóknara er hér um mjög varasama tillögu að ræða og sambærilegar heimildir sömu eftirlitsstjórnvalda í nágrannaríkjunum eru með öllu óþekktar.“

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til þess að rifja þetta aðeins upp og rekja og vekja athygli á því vegna þess að það hlýtur að vekja okkur hv. þingmenn til umhugsunar þegar stjórnarfrumvarp kemur hingað inn og fær vandaða meðferð og er breytt með svo afgerandi hætti eins og það frumvarp sem hér er til meðferðar. Þess vegna hljótum við að vekja athygli á þessu og fara yfir þetta áður en frumvarpið verður endanlega afgreitt frá þinginu við 2. umr.

Að öðru leyti er auðvitað ástæða til þess að vekja athygli á því og undirstrika að löggjöf sem þessi, sem fjallar um fjármálamarkaðinn við þær aðstæður sem við búum við á Íslandi um þessar mundir, þarf að vera vönduð og við verðum að sjá til þess að stofnanir á borð við Fjármálaeftirlitið hafi allan þann lagaramma sem nauðsynlegur er til þess að vinna verk sitt sem best og til þess að geta náð árangri, bæði í að rannsaka umfangsmikil mál og leiða til lykta þau mál sem kunna að koma upp og eru talin tengjast brotum á þessum markaði.

Að öðru leyti, hæstv. forseti, vil ég endurtaka að ég þakka hv. viðskiptanefnd fyrir auðsjáanlega mjög vandaða vinnu við þetta frumvarp og fagna því að fá tækifæri til þess að taka þátt í þessari umræðu. Ég vænti þess að við getum afgreitt þetta frumvarp svo breytt og gert að lögum svo fljótt sem verða má, en að sjálfsögðu þarf að ræða þetta mál og ég fagna því að hér hafa verið fjölmargir þingmenn sem þekkja vel til þessara mála sem hafa farið yfir frumvarpið og vakið athygli á vinnu nefndarinnar. Að þessari umræðu lokinni erum við þar af leiðandi mun betur búin til þess að afgreiða þessa löggjöf en var þegar frumvarpið var lagt fram í þeim búningi sem það var.