136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[23:28]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sturlu Böðvarssyni fyrir yfirgripsmikla og athyglisverða ræðu um það mál sem hér er á dagskrá. Í lok ræðu sinnar lýsti hann því yfir að honum þætti mikilvægt að þetta mál fengi fljóta og góða afgreiðslu og þakkaði viðskiptanefnd sérstaklega fyrir góða vinnu. Af því að ég á sæti í viðskiptanefnd vil ég þakka hlý orð í garð nefndarinnar og þeirra sem þar sitja. En það sem gerði það að verkum að ég ákvað að inna hv. þingmann frekar eftir efni málsins var að hv. þingmaður fór mjög vandlega yfir umsagnir og vakti sérstaklega athygli á umsögn m.a. sérstaks saksóknara og fór vel yfir hana. Þess vegna langaði mig að spyrja hv. þingmann hvað það var í umsögn sérstaks saksóknara sem hann taldi að dýpkaði þessa umræðu svo mjög og þar sem hv. þingmaður fór vandlega yfir þetta hvað það er í frumvarpinu eins og það liggur fyrir við 2. umr. sem hugsanlega mætti laga. Ég held að það sé mjög gott að kalla þetta fram í umræðuna vegna þess að margir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa tekið til máls við þessa umræðu. Reyndar var einhugur í nefndinni um að taka málið út og það er eitt nefndarálit þar sem allir eru samstiga. Ég vildi því kalla eftir því svona til að bæta málið og það mætti jafnvel taka það inn milli 2. og 3. umr., hvað það er sem hv. þingmaður telur að betur mætti fara í vinnu viðskiptanefndar við málið eins og það lítur út nú, og einkanlega með vísan til umsagnar sérstaks saksóknara í málinu.