136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

breyting á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

359. mál
[23:34]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson er meistari andsvaranna og hefur iðkað það hér árum saman og þekki ég það mætavel að setja sig betur inn í mál með því að fá aðra til að lesa yfir frumvörpin og endurflytja hér í andsvörum og þær ábendingar sem hann setur hér fram eru auðvitað í þeim dúr. Hins vegar vil ég segja vegna athugasemda hv. þingmanns að auðvitað eigum við að reyna að nýta okkur reynslu úr samkeppnislagaumhverfinu ef það má verða að liði þegar við komum að samkeppni á fjármálamarkaði. Íslensk löggjöf þarf að taka tillit til þess sem best reynist á hverju sviði en hins vegar er það því miður þannig að samkeppniseftirlitsiðnaðurinn á Íslandi hefur satt að segja ekki alltaf haft af miklu að státa. Ég vona hins vegar að sá lagarammi sem við höfum búið fjármálamarkaði sé betur úr garði gerður til þess að eftirlit á sviði fjármálamarkaðarins geti verið markvisst og öflugt og ef til vill umfram það sem hefur verið í samkeppniseftirlitinu sem ég verð að viðurkenna að hefur ekki alltaf verið upp á það besta. En hvað um það, ég tel að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson þekki alveg nægjanlega vel til þessa frumvarps og þeirra breytinga sem gerðar hafa verið til að átta sig á því, án þess að ég leiðbeini honum sérstaklega um það, að þessu frumvarpi hefur verið (Forseti hringir.) breytt í grundvallaratriðum og það er mjög athyglisvert.