136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær upplýsingar að hér eigi að ræða stjórnarskipunarmálin en mér þykir það hins vegar skjóta dálítið skökku við miðað við þær áherslur sem hæstv. ríkisstjórn og þingmenn minnihlutastjórnarinnar hafa sagt, að þetta sé ríkisstjórn verka, það eigi að koma hlutum í verk, en hingað til hefur hún eiginlega bara verið í einhverju sem skiptir heimilin í landinu og fyrirtækin ekkert voðalega miklu máli nema þá til mjög langs tíma, fimm eða tíu ára. Það sem brennur náttúrlega mest á heimilunum í landinu eru þau mál sem við höfum verið að ræða hérna í og með, og við þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðum gjarnan hleypt áfram, þ.e. mál sem varða fjölskyldurnar í landinu, en þau eru bara allt of fá. Það kemur svo lítið frá þessari ríkisstjórn, hún kemur svo fáu í verk. Við erum stöðugt að ræða um stjórnarskipunarmál og annað slíkt sem vissulega skiptir miklu máli (Forseti hringir.) en ekki um bráðavanda þjóðarinnar.