136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég sakna þess að fá það ekki upplýst hvort hæstv. forseti ætlar að gera ráðstafanir til að tryggja það að flutningsmenn frumvarpsins verði viðstaddir þá umræðu sem hann hyggst hefja á ný. Ég óska eftir því að hann grípi til ráðstafana til að gera þeim viðvart um það að umræðan sé að fara aftur af stað þannig að hv. flutningsmenn geti átt við okkur orðastað um sitt eigið mál.

Mér þætti líka vænt um að fá að vita hvort hæstv. forseti ætlar að blanda sér í þessa umræðu, ekki síst vegna þess að ég hef óskað eftir því að fá að heyra viðhorf hæstv. forseta til ýmissa efnisatriða málsins sem varða Alþingi Íslendinga sem stjórnlagaþing og ekki síður kannski til þeirra frétta sem okkur hafa borist í fjölmiðlum um það að ákvæði um stjórnlagaþing séu ekki lengur til umræðu í þessu máli. (Forseti hringir.) Maður skyldi ætla að hæstv. forseti (Forseti hringir.) mundi fagna því sem forseti þingsins.