136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:09]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að ræða hv. þingmanns olli mér miklum vonbrigðum. Við höfum nú hlýtt á tugi ef ekki hundruð ræðna um þetta mál þar sem stjórnlagaþingið hefur verið gagnrýnt mjög harkalega og smám saman nálgast sú stund að umboð þessa þings rennur út. Formaður þingflokks framsóknarmanna tók það upp á fundi þingflokksformanna í dag hvort það gæti verið liður í því að ná sátt í málinu að fallið yrði frá stjórnlagaþingi í ljósi þess að það væri sú gagnrýni sem sjálfstæðismenn hefðu helst haft uppi. Og fyrsta ræðan nánast sem flutt er eftir að þingflokksformaður Framsóknarflokksins leggur þetta til ef það megi verða til að ná sátt í málinu, er á þann veg að mér virðist eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins forherðist heldur ef eitthvað er. Hv. þingmaður talaði um að þeir hefðu haft uppi hugmyndir um einhvers konar sátt eða sáttaleið þótt ekkert megi um það finna í fundargerðum sérnefndar um stjórnarskrármál. Hins vegar þótti mér mjög sérstakt að hv. þingmaður skyldi bregðast við á þann hátt sem hann gerði í ræðu sinni.

Ég held að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hafi haft það eitt í huga að leita leiða til að ná sátt svo ljúka mætti umræðu um málið og allir gætu gengið út í vorið brosandi og kátir. Mér fannst sá tónn ekki vera í ræðu hv. þingmanns.