136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:14]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Jóns Magnússonar en báðir áttum við sæti og eigum enn sæti í sérnefndinni sem stendur að því nefndaráliti og breytingartillögum sem hér liggja fyrir og eru á dagskrá. Ég hlustaði á þau ummæli hans að sjálfstæðismenn í nefndinni hefðu hvað eftir annað lagt það til málanna að sættir gætu tekist. Ég vil í því sambandi minna á að ég kannast ekki við þá sáttarhönd í nefndinni. Þvert á móti var talað um að þetta væri hreint lýðskrum, það væri niðurlæging fyrir Alþingi að bera svona mál fram. Nefndarmenn tóku stórt upp í sig, sögðu að málið væri tóm della og lögð var fram rökstudd dagskrártillaga um að málinu í heild yrði vísað frá. Síðan hafa verið haldnar rúmlega 700 ræður til að mótmæla þessu máli.

Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar að gagnrýni hefur að langmestu leyti beinst gegn stjórnlagaþinginu. Og nú hefur það gerst, sem út af fyrir sig er markvert, að fulltrúi Framsóknarflokksins hefur tilkynnt það opinberlega og gaf það raunar í skyn í ræðu í þinginu fyrr í dag að tillagan um stjórnlagaþingið væri dregin til baka. Eftir standa þá þrjár greinar í þessu frumvarpi. Ein þeirra er um að liðka fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, önnur er um að liðka fyrir breytingum á stjórnarskrá með nýjum aðferðum og sú þriðja er um að það sé slegið í gadda að í stjórnarskránni sé tekið fram að náttúruauðlindirnar séu sameign þjóðarinnar. Á móti hverju er hv. þingmaður? Er hann á móti aukinni aðkomu almennings að ákvörðunum? (Forseti hringir.) Er hann á móti breytingum á stjórnarskrá eða er hann á móti því að það sé slegið inn í stjórnarskrána að þjóðin eigi náttúruauðlindir?