136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:18]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get vel staðfest að hv. þm. Jón Magnússon hefur verið duglegur og iðinn við að taka þátt í málþófinu sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa efnt hér til undanfarna sólarhringa. En ég vísa því á bug enn og aftur, og það var þess vegna ég kvaddi mér hljóðs, að það var ekki um að ræða neina sáttarhönd af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í sérnefndinni, hvorki fyrr né síðar í þeirri meðferð sem málið fékk í nefndinni. Beðið var af þeirra hálfu um að settar yrðu fram tillögur um breytingar á upphaflegu frumvarpi og það var gert. Þrátt fyrir þær breytingar var ekki fallist á að samþykkja eitt eða neitt.

Í umræðunni undanfarna daga hefur hins vegar komið í ljós að ýmsir fulltrúar þingflokks Sjálfstæðisflokksins hafa verið jákvæðir gagnvart 1., 2. og 3. gr. sem fela í sér þau þrjú atriði sem ég nefndi áðan, þ.e. aukna aðkomu almennings í þjóðaratkvæðagreiðslum, auðveldari aðferðir til þess að breyta stjórnarskrá og til þess að slá því föstu að náttúruauðlindirnar væru sameign þjóðarinnar. Hv. þingmaður vék sér undan að svara því og ég vil gjarnan fá það skýrt fram úr því að hann hefur tækifæri til að taka til máls aftur: Tekur hv. þingmaður enn þátt í málþófinu til að reyna að koma í veg fyrir að 1. gr. sé samþykkt eins og hún liggur fyrir í dag? Hann hefur verið þeirrar skoðunar, a.m.k. fram að þessu, að náttúruauðlindirnar ættu að vera í sameign þjóðarinnar og því yrði slegið föstu í stjórnarskrá. Er ekki kominn tími til að menn horfist í augu við sinn eigin veruleika og sína eigin sannfæringu en vera ekki að dingla aftan í stórum hópi manna sem heldur hér uppi málþófi?

Ég tók fram í umræðu í dag eða í gær að nú ætti málið að fara til nefndar án þess að vera frekar að ræða það, við erum búin að heyra öll sjónarmið. Við ættum þá að gera tilraun í ljósi breyttra aðstæðna (Forseti hringir.) til að klára málið með því að ná samkomulagi um (Forseti hringir.) þær þrjár greinar sem eftir standa.