136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:21]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki heyrt annað en að hv. þm. Ellert B. Schram sé mér sammála um að kalla eigi málið aftur inn til nefndar en kannski er spurningin um hvort það verði gert núna og umræðunni frestað, eins og ég hef lagt til, eða það verði gert á þeim nótum að 2. umr. ljúki án frekari tilvika og þar með verði málið kallað aftur inn til nefndar svo sem ber að gera. Ég hef lagt áherslu á að við gerum það þegar í stað og ég gerði það líka fyrir páska, ég hefði talið að það ætti að reyna að nota tímann til þess að brúa bilið.

Flutt hefur verið tillaga um breytingar á 79. gr. um náttúruauðlindir. Að því stóðu á síðasta þingi formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti mjög athyglisverða breytingartillögu við 1. gr. sem að mínu viti þarf að skoða. Þar koma upp mjög athyglisverðir hlutir sem ég ætlaði að ræða í næstu ræðu minni sem verður þá sú sjöunda í þessari umræðu, það finnast mér mjög athyglisverðar tillögur.

Þá höfum við sjálfstæðismenn alltaf talað um að við værum opnir fyrir að skoða breytingar á 79. gr. laganna og það liggja fyrir ákveðnar hugmyndir m.a. frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins varðandi breytingar á 80. gr. laganna, eins og ég rakti í ræðu hér fyrr í umræðunni. Það er því greinilegt að ég þarf að fara að endurtaka eitthvað af þessum ræðum fyrst þetta hefur skilað sér svona illa, meira að segja til manna sem sitja í sérnefndinni um stjórnarskrármálið þar sem verið er að fjalla um þau efnisatriði málsins, og síðan er kallað: Þetta er málþóf. Ég tek ekki þátt í neinu málþófi enn þá. Það kann vel að vera að ég þurfi að gera það einhvern tíma síðar en ég á þegar eftir órædd mörg efnisatriði (Forseti hringir.) þannig að það entist ekki nóttin þó að ég fengi að standa einn í þessum ræðustól til að fjalla um það. (Forseti hringir.) Ég vona að það komi annar þingmaður í ræðustól á milli ræðna minna (Forseti hringir.) svo að ég geti haldið umræðunni áfram. (Gripið fram í.)