136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil ítreka spurningar mínar varðandi fjarveru hæstv. forsætisráðherra hér við umræðuna. Mig langar líka til þess að spyrja hæstv. forseta að því hver staða þessa frumvarps er, vegna þess að því hefur verið lýst yfir að Framsóknarflokkurinn hafi fallið frá tillöguflutningi sínum um stjórnlagaþing. Ég velti þá fyrir mér: Er breytingartillaga væntanleg við frumvarpið um brottfall 4. gr. eða er sú grein enn þá undir í umræðu um málið? Kalla þessar yfirlýsingar ekki á að málið verði fært til sérnefndar til umræðu um í hvaða búningi við ætlum að ræða það hér úr því að komið hefur fram yfirlýsing um að tillöguflutningur um stjórnlagaþing er fallinn niður? Ég held að það sé eðlilegt að við þingmenn fáum upplýsingar um í hvaða búningi frumvarpið er og á hvaða forsendum við eigum að ræða það.

Ég man ekki til þess að umræða um frumvarp hafi farið fram hér á þingi undir þeim kringumstæðum sem nú eru þannig að ég tel mjög mikilvægt (Forseti hringir.) að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að (Forseti hringir.) þetta verði lagfært.