136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:31]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs áðan, þ.e. í gær, fyrir miðnætti, og sagði þá undir þessum lið að nú væri að vora hjá okkur og gróðurinn að vakna í Alþingisgarðinum. Nú er komið fram yfir miðnætti og kominn nýr dagur og líður nær sauðburði. Á syðstu hlutum landsins fer sauðburður í gang og þá er venjan að þing fari heim og þeim málum sinnt. Nú sýnist mér standa þannig á, herra forseti, að afturfótafæðing sé á ferðinni í sauðburðinum á Alþingi, það er afturfótafæðing. Ég sakna þess — nú gengur í salinn hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er hrein afturfótafæðing sem á sér stað hér og það eina sem rökrétt er að gera í slíkum aðstæðum er að kalla málið til nefndar og fá þar til gerða lækningu við því sem að er og taka síðan málið aftur fyrir (Forseti hringir.) á eðlilegan og náttúrulegan hátt.