136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:42]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar og formaður sérnefndar um stjórnarskrármálið hefur ekkert fylgst með hvað hefur gerst hérna í dag, það var ekkert ef, kannski eða hugsanlega hjá formanni þingflokki Framsóknarflokksins. Ég er með frétt frá mbl.is frá því kl. 19.12 þar sem Siv Friðleifsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, segir að sjálfstæðismönnum hafi tekist að koma í veg fyrir að ákvæði um stjórnlagaþing yrði sett inn í stjórnarskrána. Málið væri því úr sögunni í bili. Siv sagði það mikil vonbrigði að málið hafi ekki náð í gegn. Bíðum við, við erum ekki einu sinni búin að greiða atkvæði um þessa breytingartillögu, en það er búið að slá þetta af í blöðum og við erum á hv. Alþingi enn þá að ræða breytingartillögu þar sem þessar breytingartillögur eru inni. Það hlýtur að verða eina ferðina enn, hæstv. forseti, að árétta þá tillögu að umræðunni verði frestað og málið sent til sérnefndarinnar og 2. umr. (Forseti hringir.) um frumvarpið verði haldið áfram í þeim búningi (Forseti hringir.) sem ljóst er að samkomulag hefur náðst um.