136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:47]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn í umræðuna vegna þess að það er alveg ljóst að breytingartillögur eru ekki fluttar í fjölmiðlum. (Gripið fram í.) Breytingar á málum verða ekki til í fjölmiðlum. Þær eiga sér aðeins stað með því að lagðar eru fram breytingartillögur í þinginu (Gripið fram í.) þannig að það hefur engin breyting orðið á málinu.

En ég vil ítreka að það sáttatilboð sem framsóknarmenn settu fram gerði það að verkum að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins kallar eftir úrskurði forseta. Þegar Framsóknarflokkurinn í heild sinni býður fram sáttarhönd er henni mætt á þann hátt að það er bara heimtað og kallað eftir úrskurði. (Gripið fram í.) Það er algjörlega fráleitt enda hefur engin breyting orðið á málinu (Gripið fram í.) þó fulltrúi Framsóknarflokksins hafi lýst því yfir í fjölmiðlum (Gripið fram í.) að þau vilji ná sátt í málinu vegna málþófs (Gripið fram í.) þingmanna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Það er algjörlega fráleitt að (Forseti hringir.) ræða málið á þann hátt að það sé ekki þingtækt.