136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ræddi það fyrr í liðnum um fundarstjórn að Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu sé að kanna ástand mannréttinda og kosningalaga á Íslandi og hvort þessar kosningar fari rétt fram, en hún er með sérstaka stofnun í Varsjá sem gætir að því og sendir aðila til kosningaeftirlits víða um heim. Það sem mér skilst að hafi vakið athygli þeirra er mjög samþjappað vald yfir fjölmiðlum á Íslandi, að þeir skuli vera að mestu leyti í eigu eins manns og svo ríkisins. Þeir munu örugglega líka líta til þess hversu undarleg þessi kosningabarátta verður, herra forseti, þegar eingöngu 10 dagar eru til kosninga og þingmenn enn bundnir á þinginu.

Það skekkir kosningabaráttuna á margan hátt. Í fyrsta lagi geta þingmenn og flokkar ekki kynnt málefni sín fyrir kjósendum eins og nauðsynlegt er en svo kunna aðrir aðilar, flokkar sem ekki eiga fulltrúa á Alþingi, að kvarta undan því að þingmenn hafi ræðustól Alþingis til fulltingis í kosningabaráttunni á meðan þeir hafi það ekki. Ég hugsa því að menn muni setja ýmislegt út á að þingið starfi svona nálægt kosningum.

Svo gerast þau tíðindi í dag sem ég heyri á ræðum manna og les um í fjölmiðlum, þ.e. á netmiðli Morgunblaðsins, að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, formaður þingflokks framsóknarmanna, hefur lýst því yfir að 4. gr. frumvarpsins eigi að falla brott. Ég er búin að marglýsa því yfir að aðalástæðan fyrir því að ég er á móti þessu frumvarpi er sú rökleysa sem felst í því að samkvæmt frumvarpinu hafa bæði Alþingi og hið nýkjörna stjórnlagaþing heimild til að breyta stjórnarskránni og bera þá breytingu undir þjóðina. Það getur leitt til ófyrirséðra stjórnlagavandræða sem ég hafði bent á og hef reyndar sent fréttamanni á einum fjölmiðli útdrátt úr ræðu minni þar sem ég fjallaði um þetta. En það er svo merkilegt, herra forseti, að það kemst bara ekki til skila, það fer ekkert út í fjölmiðlana. Það er eitt af því sem ég mun benda á ef ég verð spurður af þessari nefnd Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, að fréttaflutningurinn er dálítið skrýtinn. Það er eins og sum atriði nái bara ekki eyrum fjölmiðla, þó að það sé endurtekið aftur og aftur kemst það ekki áfram. Þetta er ein meginástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki fallist á þær breytingar sem hér liggja fyrir.

Ég ætla að endurtaka það einu sinni enn: Í 2. gr. stendur, með leyfi herra forseta:

„Frumvarp til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari má bera upp á Alþingi.“ Slíkt frumvarp má ekki samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við fjórar umræður og skal ein vika hið minnsta líða milli umræðna. „Þegar Alþingi hefur samþykkt frumvarpið skal það borið undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.“

Sem sagt, Alþingi getur samþykkt breytingar á stjórnarskránni og borið það undir þjóðina.

Svo stendur í 4. gr., sem mér skilst eftir óstaðfestum fréttum — því að það hefur ekki komið inn í umræðuna hér á Alþingi — að sé fallið frá, með leyfi herra forseta:

„Forseti Íslands skal boða til stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, þar sem byggt verði áfram á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda.“ Þingið skal koma saman, o.s.frv.

Svo segir að hljóti frumvarp til stjórnskipunarlaga samþykki í það minnsta 2/3 fulltrúa stjórnlagaþings skuli það borið undir atkvæði allra kosningabærra manna í leynilegri atkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.

2. gr. segir sem sagt að Alþingi sé stjórnlagaþing sem breyti stjórnarskránni og geti borið það undir þjóðina og 4. gr. segir að stjórnlagaþingið breyti stjórnarskránni sömuleiðis og geti borið það undir þjóðina. Það eru tveir aðilar sem geta gert tillögu um breytingar á stjórnarskrá og borið þær undir þjóðina.

Nú skulum við hugsa okkur að draumsýn margra — því að það hefur virkilega verið draumsýn margra og ég skil það vel — sé sú að hið nýja stjórnlagaþing sé skipað einhverjum öðrum hópum en þeim sem skipa Alþingi. Sumir hafa þá draumsýn að flokkarnir muni ekki koma neitt að þessu og það er meira að segja tekið fram í hugmyndum sumra að alþingismenn séu ekki kjörgengir á þetta stjórnlagaþing. Við gefum okkur að það myndist einhver allt annar hópur á þessu stjórnlagaþingi og sá hópur sé með byltingarkenndar hugmyndir um það t.d. að leggja Alþingi niður í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa. Alþingi fréttir af þessu og samþykkir í flýti breytingar á stjórnarskránni um að leggja stjórnlagaþingið niður. Báðir aðilarnir bera það undir þjóðina, jafnvel sama daginn, að breyta stjórnarskránni í þá veru annars vegar að leggja Alþingi niður, sem hefur verið starfandi hér á Íslandi síðan 930 með hléum og er ein verðmætasta eign íslensku þjóðarinnar, burt séð frá einstökum þingmönnum, og hins vegar stjórnlagaþingið sem menn ætla það hlutverk að breyta stjórnarskránni. Bæði vilja leggja hitt niður og bera það undir þjóðina á sama tíma.

Þetta gengur náttúrlega ekki upp, herra forseti, það er algjör rökleysa. Það er ég búinn að segja nokkrum sinnum en það er svo merkilegt, það kemur ekki frá fjölmiðlum, það fer bara ekki lengra, kannski vegna þess að ræðurnar eru haldnar kl. hálftvö að nóttu til og fjölmiðlarnir sofa eða þeir vilja bara ekki að þetta komi fram. Kannski vilja þeir það ekki vegna þess að þeir eru í eigu eins aðila og það hentar honum ekki, ég veit það ekki, en þetta er mjög skrýtið. (Gripið fram í: Hvað gerist ef báðar eru samþykktar?) Já, svo er nefnilega spurning hvað gerist ef báðar eru samþykktar. Þá erum við hvorki með Alþingi né stjórnlagaþing. Þá kemur upp ákveðið tómarúm.

Það er dálítið skrýtið. Það er meginástæðan fyrir því að við sjálfstæðismenn stöndum hér og ræðum þetta í þaula. Það er ástæðan fyrir því að við ræðum þetta. Svo fréttir maður allt í einu á skotspónum úti í bæ, á bloggsíðu, að fallið sé frá 4. gr. og allt í einu er grundvöllur þess að við ræðum þetta í þaula horfinn. En við vitum það formlega séð ekki, það hefur ekki verið rætt hérna á Alþingi. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem er hluti af Alþingi, hefur ekki mætt hérna í dag til þess að segja frá þessari breytingu sinni. Flutningsmenn nefndarálitsins — það er hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sem skrifar undir nefndarálitið en hún er ekki lengur á Alþingi þannig að mér skilst að hv. þm. Birkir J. Jónsson sé núna fulltrúi Framsóknarflokksins í þessari nefnd. Hann hefur heldur ekki tekið þátt í umræðunni í dag þó að hann hafi verið þaulsætinn, ég get borið vitni um það. Við vitum í rauninni ekki formlega séð enn þá hvort þessi tillaga sé raunveruleg, það hefur engin breytingartillaga komið. Við erum eiginlega að ræða hér í tómarúmi.

Ræða mín yrði allt öðruvísi uppbyggð ef 4. gr. væri formlega séð fallin burt. Þá gæti ég farið að ræða um það af hverju við erum að breyta stjórnarskránni í 1. og 3. gr., það er svo aftur annar handleggur.

Ég vil benda á að það eru tveir hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem ekki hafa rætt um stjórnarskrárbreytinguna, það eru þrettán þingmenn Samfylkingar sem ekki hafa tekið til máls í þessu máli og það eru fimm þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ekki hafa tekið þátt í umræðunni og eru þeir þó á stjórnlagaþingi, herra forseti. Þeir eru á stjórnlagaþingi og ættu að taka það mjög alvarlega og láta okkur hin vita hvaða skoðun þeir hafa á þessum breytingum en við vitum það ekki. Það getur vel verið að það sé nóg fyrir þá að koma hérna og greiða atkvæði, ég veit það ekki hvort þeim þykir það nóg afrek í þátttöku sinni á stjórnlagaþingi að greiða atkvæði. Mér finnst það ekki. Mér finnst að menn eigi að sýna hv. Alþingi, sem er stjórnlagaþing, þá virðingu sem stjórnlagaþingi að taka þátt í umræðunni. Það vantar því enn þá æðimarga ræðumenn — þó að þeir taki stutt til máls — um það hvaða skoðun þeir hafa á þessum breytingum sem þeir eru að gera.