136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[01:53]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þar sem klukkuna vantar nú fimm mínútur í tvö vildi ég óska eftir því við hæstv. forseta að hann fari að gefa okkur einhverjar vísbendingar um hversu lengi hann hyggst halda fundi áfram. Á mælendaskrá er fólk sem hafði ekki reiknað með að fundurinn mundi dragast þetta lengi og ég verð þá að gera ráðstafanir til þess að kalla það fólk út ef hæstv. forseti ætlar að halda áfram lengi nætur.

Að vísu hefur þetta mál í sjálfu sér ekki verið rætt mjög lengi. Klukkan hálftólf í kvöld var búið að ræða það í 47 klukkutíma, en það náði þó ekki umræðutímanum sem t.d. vatnalögin tóku sem var 57 klukkutímar. Það var ekki hálfdrættingur á við fjölmiðlafrumvarpið, EES-samninginn eða Ríkisútvarpið. Í sjálfu sér má segja að þetta mál hafi ekkert verið rætt óskaplega (Forseti hringir.) lengi hér á þingi. En í tilefni af því að nú er komin mið nótt og gera þarf sérstakar ráðstafanir ef á að halda umræðu lengur áfram væri gott að fá betri upplýsingar um það.