136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[10:32]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Kosningabaráttan er farin að taka á sig nokkuð einkennilega mynd ef frambjóðendur og forusta Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru farin að sýna sitt rétta andlit. Á borgarafundi sem Ríkisútvarpið stóð fyrir sem haldinn var í Reykjavík í gær lýsti varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, því yfir að það væri stefna Vinstri grænna að lækka laun opinberra starfsmanna. (Gripið fram í: Og hækka skatta.) (Gripið fram í.) Það eru auðvitað mikil ótíðindi fyrir opinbera starfsmenn sem enn hafa vinnu að Vinstri grænir áformi að lækka launin þeirra en það eru afar mikil ótíðindi þegar önnur stefnumál Vinstri grænna eru skoðuð samhliða, þ.e. að Vinstri grænir hafa líka uppi áform um að hækka skatta á launafólk í landinu. Að mínu mati er það aðför að heimilunum í landinu.

Nú þegar 18.000 einstaklingar ganga atvinnulausir, margir hafa þegar tekið á sig launalækkanir, vextir eru háir og verðbólga líka sýna íslenskir vinstri menn 10 dögum fyrir kosningar sitt rétta andlit. Þeir ætla að lækka laun fólksins í landinu og hækka skattana á fólkið í landinu. Ég spyr hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, þingmann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hvort þetta geti virkilega verið. Getur virkilega verið að framlag Vinstri grænna til að bjarga heimilunum í landinu sé það að lækka laun fólksins í landinu og í ofanálag hækka skattana á það og þar með (Forseti hringir.) lækka ráðstöfunartekjur (Forseti hringir.) og auka enn frekar á þann mikla vanda sem nú steðjar að heimilunum í landinu.