136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum.

[10:39]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er með ólíkindum að heyra talsmenn Sjálfstæðisflokksins og málflutning þeirra. Þetta er flokkurinn sem stóð að hruni efnahagskerfisins. Þetta er flokkurinn sem ber ábyrgð á því að það er 170 milljarða kr. halli á fjárlögum þessa árs og stór hluti af því er vaxtagreiðslur vegna erlendra lána, ekki sem almenningur tók, nei, þetta eru ofurlaunaliðið sem hefur fóðrað Sjálfstæðisflokkinn undanfarin ár. Á 18 ára valdaferli Sjálfstæðisflokksins kom hann sér upp ofurlaunaliði sem fóðraði hann.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ætti kannski að gera grein fyrir því hvað Sjálfstæðisflokkurinn borgaði fyrir að þiggja fjármagn frá FL Group, frá Landsbankanum, frá ofurlaunaliðinu sem hann ver nú. Hvað þurfti hann að borga fyrir það? Væri ekki nær að hv. þingmaður skýrði það út? (Gripið fram í.) Hver hefur skattstefnan verið hjá Sjálfstæðisflokknum á undanförnum árum? Jú, fella niður skatta á hátekjufólkið (Gripið fram í.) en hækka skatta á lágtekjufólkið. Þetta hefur verið skattstefna Sjálfstæðisflokksins á undanförnum árum.

Við vinstri græn viljum jöfnuð. Við viljum ekki fóðra ofurlaunalið Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg hárrétt, hvort sem það er í ríkisfyrirtækjum eða einkageiranum. Við viljum ekki fóðra ofurlaunalið Sjálfstæðisflokksins. Við teljum að það eigi að nota það svigrúm til að jafna kjörin, lækka laun þeirra sem eru með himinhá laun til að geta fært laun til þeirra sem eru með lægri laun, til að geta tryggt sem flest störf í landinu. En Sjálfstæðisflokkurinn ver ofurlaunaliðið sitt og það er greinilega launa-, kjara- og skattstefna Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) að verja sitt ofurlaunalið sem er búið að fóðra hann undanfarin 18 ár.