136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka.

[10:52]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar, það er ömurlegt að vita til þess þegar stjórnmálaflokkur hefur þegið mútur — ég segi mútur, og stjórnmálamenn vita upp á sig skömmina. Þegar um óeðlilega háar fjárhæðir er að ræða í styrkjum til stjórnmálaflokka eru það ekkert annað en mútur. Það verður að kalla þessa hluti réttum nöfnum. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson á að biðjast afsökunar á því að hafa sagt að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi Íslands væru jafnsekir. Það er ömurlegt að heyra hvernig menn reyna að breiða yfir vinnubrögð sinna flokka í þessum málum.

Við erum hér að glíma við mjög sjúkt samfélag og sjúka pólitík sem lætur það viðgangast að þiggja mútur í tíma og ótíma og sjálfstæðismenn ættu fremstir í flokki að biðjast afsökunar á því hvernig þeir hafa hagað sér og hvernig þeir hafa umgengist íslenskt samfélag. En það eru ekki bara sjálfstæðismenn sem þiggja háar greiðslur, það eru líka menn í Samfylkingunni sem þegið hafa peningagjafir frá bönkum og þeir stóðu sig ekki í eftirliti með bönkunum. Kaupþing banki borgaði Samfylkingunni 5 milljónir rétt áður en ný lög voru sett. Það eru kannski smáaurar miðað við það sem FL Group og Landsbankinn gerðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn og það er grafalvarlegt mál. Hér þurfum við að fjalla um þessi mál (Forseti hringir.) — Alþingi Íslendinga á að fjalla um þessi mál.