136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka.

[10:55]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að bregðast við vegna alveg ótrúlegrar umræðu af hálfu þingmanna Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Hv. þm. Jón Bjarnason fullyrðir það eins og hann sé að tala í alvöru að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið að hruninu. Þvílík ummæli og fullyrðingar eru náttúrlega ekki samboðnar þingmanni á Alþingi Íslendinga.

Í aðdraganda kosninganna 2007 var staða okkar Íslendinga talin öfundsverð í öllu tilliti. Að loknum kosningum 2007 slógust Samfylkingin og Vinstri grænir um að fá að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, það liggur fyrir. Hæstv. núverandi fjármálaráðherra var stórmóðgaður vegna þess að hann missti af strætisvagninum í hendurnar á Samfylkingunni sem fór í samstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Síðan þekkjum við hvað hefur gerst. Að halda því fram að hið alþjóðlega bankahrun og sú staða sem í kjölfarið varð sé einum stjórnmálaflokki að kenna er ótrúlegur málflutningur, hann er ekki samboðinn ágætum hv. þingmönnum á Alþingi Íslendinga. (Gripið fram í.) Stóryrði af hálfu þessara ágætu þingmanna eru svipuð og Jón sterki í Skugga-Sveini viðhafði: „Sáuð þið hvernig ég tók hann?“ Og síðan ekki söguna meir. Verkin birtast ekki og það stefnir allt í voða hjá okkur. Við þekkjum hvernig staðan í gengismálunum er, við sjáum hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Hún ætlar fyrst og fremst að auka útgjöld ríkisins. Hún sér eingöngu leið til uppbyggingar í atvinnulífinu með því að auka útgjöld, (Forseti hringir.) bæta við ríkisstarfsmönnum og lækka laun (Forseti hringir.) opinberra starfsmanna. Það er mjög athyglisvert útspil.