136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

stefna VG í efnahagsmálum -- orð þingmanns um framlög til stjórnmálaflokka.

[10:57]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að beina því til forseta að hann bregðist við því þegar svo alvarlegar ásakanir eru í ræðustólnum, um mútuþægni. Það er ekki við hæfi að þingmenn beri svona staðlausa stafi hver á annan.

Ég vildi að öðru leyti bregðast við því sem hér hefur komið fram varðandi hver eru skilaboð Vinstri grænna. Hæstv. menntamálaráðherra, varaformaður Vinstri grænna, kom með þau skilaboð í gærkvöldi að lækka ætti laun ríkisstarfsmanna og jafnframt að hækka ætti skatta. Það eru nú skilaboðin og bjargráðin sem koma úr þeim herbúðum. Það er algjört úrræðaleysi í atvinnumálum. Það má ekki nýta orkulindirnar til að skapa störf. (Gripið fram í.) Hvernig á að nýta orkulindirnar til að skapa störf? Það má ekki ljúka hér málum á Alþingi sem snúa að því að klára eigi (Gripið fram í.) samninga um álverið í Helguvík vegna andstöðu Vinstri grænna. Það er staðan sem við höfum.

Það má ekki semja um loftslagsákvæðin fyrir Ísland. Það þola Vinstri grænir ekki. Það eru engin úrræði hvað varðar atvinnumál. Menn geta ekki brugðist við varðandi gengismálin og eina sem kemur úr ræðustóli á Alþingi frá hv. þingmönnum Vinstri grænna er hálfsannleikur um öll mál og atvinnumálin, nei. (Forseti hringir.) Það sem gæti hugsanlega bjargað í þeim hremmingum (Forseti hringir.) sem við göngum í gengum núna — (Forseti hringir.) nei, það má ekki gera neitt í atvinnumálum. Við skulum skattpína þjóðina, (Forseti hringir.) það eru skilaboðin. (Gripið fram í.)