136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[11:13]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Eins og sést á framhaldsnefndaráliti erum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem stöndum að afgreiðslu málsins ekki með fyrirvara eins og við vorum með við nefndarálit og breytingartillögur við 2. umr. Þeir þættir sem við vorum með breytingartillögur við, þær tillögur voru dregnar til baka og verða ekki endurfluttar nú við 3. umr. Það þýðir að ekki er lagt til að skilanefndirnar verði lagðar niður með lögum heldur fái þær að starfa áfram eins og efni og ástæður standa til í hverju tilviki.

Það mun væntanlega þýða að lánardrottnar verða rólegri og hafa ekki eins miklar áhyggjur af sínum hlut, alla vega fyrsta kastið vonar maður. Vonandi verður hins vegar meiri hraði á þessum málum en verið hefur síðustu mánuði að úr þessum málum leysist og lánardrottnar gangi að því að málin verði leyst af skynsemi og yfirvegun og út úr því geti komið niðurstöður sem bæði eru bestar fyrir lánardrottnana og okkur hér á landi.

Ég er reyndar þeirrar trúar að sú lausn sé til sem uppfyllir þau skilyrði að vera bæði besta lausnin fyrir lánardrottnana og eins besta lausnin fyrir okkur hér á landi og það sé í rauninni líka sú lausn sem er sanngjörnust vegna þeirrar stöðu sem upp er komin, því að auðvitað eiga lánardrottnarnir mikilla hagsmuna að gæta vegna lána sinna, bæði bankarnir í sínum beinu lánveitingum og eins þeir sem eiga skuldabréfin, þetta eru eignir þeirra. Þeir tóku hins vegar áhættu og munu auðvitað tapa vegna þeirra hluta sem gerst hafa. Með því að ganga inn á þetta og taka við þó þeim eignum sem eftir standa eru líkurnar til þess væntanlega hámarkaðar að þeir fái sannvirði fyrir þær þegar upp er staðið og fullrar sanngirni sé gætt þannig að verði meira úr eignunum þegar fram líða stundir njóti þeir þess en sú staða verði aldrei uppi að mat á einhverjum tilteknum tíma verði lagt til grundvallar og síðan verði meira úr eignunum og þá verði það þeir sem tóku við þeim, og þá hugsanlega íslenskir aðilar, sem hagnist og lánardrottnar verði ósáttir við það.

Hins vegar er það mjög gilt sjónarmið að skilanefndirnar starfi ekki lengur en þær nauðsynlega þurfa og þegar við erum komin með nýtt ferli fyrir slit á fjármálafyrirtækjum og uppgjör á þeirra málum eigum við auðvitað að hafa þann tíma sem allra stystan þar sem tvö kerfi eru í gangi. Það er alveg möguleiki á að hægt sé að leysa úr þessu á eðlilegan hátt án þess að lánardrottnar þurfi neitt að hvekkjast við það að kerfið sé einfaldað og tvö kerfi verði ekki í gangi nema um skamma hríð. En það er ástæðulaust að ýta undir óróa með því að setja lagafyrirmæli um það hvenær leggja eigi nefndirnar niður.

Hins vegar er það umhugsunaratriði, eins og ég nefndi í ræðu við 2. umr., hvers vegna löggjöfin var ekki betur í stakk búin til að takast á við þau vandamál sem upp komu. Það getur vel verið rétt skýring að það sé vegna þess að þetta var svo óvænt og svo stórir hlutir sem gerðust að ekki sé hægt að ætlast til að löggjöfin sem við vorum með réði við það. Það getur vel verið að það sé rétt skýring. Þeir sem gangast við þeirri skýringu gangast þá líka við því að þeir hlutir sem hér gerðust voru óvenjulegir og óvenjulega stórir og gerðust svo snöggt að stjórnvöld höfðu ekki ráðrúm til að bregðast betur við þeim en raunin var.

Ég tel reyndar að stjórnvöld hafi brugðist vel við þessum erfiðleikum og áföllum í upphafi. Þar er auðvitað um þrjá þætti að ræða og hefur ekki gengið eins vel með þá alla og dæmin sanna. Í upphafi gekk sérstaklega vel með að styrkja stöðu krónunnar og þegar fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru hér í desember og fóru yfir stöðuna voru þeir sáttir við hvernig til tókst með að fleyta krónunni á ný og hvernig hún hafði styrkst. Hún átti reyndar eftir að styrkjast enn meira þegar leið aðeins á árið. Því miður hefur slegið í bakseglin síðustu vikur hvað krónuna varðar og er erfitt á átta sig á hvað þar er um að ræða.

Þrennt kemur upp í hugann. Í fyrsta lagi að gjaldeyrishöftin séu ekki að virka eins og skyldi og löggjafinn hefur reynt að bregðast við því með því að herða höftin. En það að þetta skuli nefnt til sögunnar sýnir einungis að gjaldeyrishöft eru í besta falli tímabundið fyrirbrigði og geta ekki staðið lengi.

Í öðru lagi hefur tafist að önnur greiðslan komi frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það má vel vera að að einhverju leyti hafi tiltrú á krónunni minnkað við það. Ég kann ekki skýringar á því af hverju sú greiðsla hefur tafist. Væntanlega er það vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki að fullu búinn að taka afstöðu til þeirrar skýrslu sem varð til við þá endurskoðun sem fór fram undir lok febrúarmánaðar. Hún átti reyndar upphaflega að fara fram fyrr í þeim mánuði. Þó hefur sjóðurinn tekið það mikla afstöðu til þeirrar niðurstöðu að hann var sáttur við það að vaxtalækkunarferli hæfist og því veltir maður fyrir sér hvers vegna greiðslan kemur ekki ef talið hefur verið óhætt að lækka vextina og sjóðurinn verið sáttur við það. Mér skilst að ekki hafi verið haldinn fundur í stjórn gjaldeyrissjóðsins til að taka afstöðu til skýrslu starfsmannanna og það væri út af fyrir sig athyglisvert ef fram kæmu einhverjar skýringar á því hvers vegna svo er og hvenær sá fundur eigi að verða, hvort einhver tengsl séu á milli þess að hér eru að fara fram kosningar og þess að sjóðurinn hefur ekki haldið fundinn.

Þriðja atriðið er svo Seðlabankinn sjálfur og hvað hann hefur verið að gera. Hann hefur auðvitað verið að lækka vextina og það gæti út af fyrir sig haft áhrif á útstreymi gjaldeyris. En markaðsaðgerðir Seðlabankans skipta líka máli. Þegar stórir gjalddagar eru á stöðum erlendra aðila í krónum þarf Seðlabankinn að vera virkur á markaði þannig að þegar heimilt er að flytja fjármuni úr landi sé gjaldeyrir til reiðu til að svo geti verið. Þá þarf Seðlabankinn auðvitað að varna því að tímabundnar sveiflur verði á krónunni vegna stórra útgreiðslna eins og krónulána erlendra aðila. Það á að vera hlutverk Seðlabanka að vega upp á móti slíkum sveiflum.

Það gerði Seðlabankinn einmitt í desember. Þá var hann reiðubúinn undir það að greiðslur vegna vaxta rynnu úr landi og stóð þá með krónunni í viðskiptum á markaði til að svo gæti orðið. Reyndar var staðan þá sú að erlendir aðilar fluttu ekki eins mikið af vöxtunum úr landi og menn höfðu ætlað. Það getur vel verið að það sé beint samhengi á milli þess að þá var krónan í styrkingarferli en síðast þegar þetta gerðist hefur krónan verið að veikjast vegna þess að Seðlabankinn hafði minnkað umsvif sín á markaðnum.

Í desember tjáði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sig líka um ríkisfjármálin og var sáttur við það fjárlagafrumvarp sem þá hafði verið afgreitt og það væri í samræmi við þau markmið sem sett voru í samkomulagi okkar við sjóðinn. Það er í meginatriðum sú ríkisfjármálastefna sem við búum við og munum búa við á næstu árum sem sett er fram í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þó að auðvitað sé heilmikið svigrúm fyrir okkur Íslendinga til að útfæra hana bæði á tekju- og gjaldahlið. En við verðum að vera meðvituð um hvernig það er gert og að það hefur áhrif á aðra þætti í hagkerfinu, sérstaklega á einkaneyslu og eftirspurn og þar með á hagvöxt. Ef við erum ekki með rétta jafnvægið á milli þeirra hluta sem við gerum þar getur það leitt til þess að kreppan verði dýpri.

Nú á sér stað, sér maður í erlendum fjölmiðlum, mikil umræða um hvað af aðgerðum erlendra ríkisstjórna og seðlabanka á síðustu mánuðum hefur skilað árangri og hvað ekki. Eitt af því sem menn sjá núna að skilaði árangri t.d. í Bretlandi er lækkun á virðisaukaskatti síðla á síðasta ári. Sú lækkun virðist hafa dregið úr og jafnvel stöðvað þann samdrátt sem var í einkaneyslunni þar og þar með líka dregið úr tekjuminnkun hins breska ríkissjóðs vegna samdráttar í einkaneyslu. Það er auðvitað athyglisvert að velta þessu fyrir sér í ljósi ummæla varaformanns Vinstri grænna á kosningafundi í gær, mjög hreinskilinna ummæla um til hvaða aðgerða Vinstri græn vilja grípa í ríkisfjármálunum. (Gripið fram í.) Já, það er afskaplega mikilvægt að vera hreinskilinn. Ég kann að meta það.

Þriðja atriðið snertir auðvitað þetta frumvarp sérstaklega. Það er endurreisn bankakerfisins og við það gerði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn athugasemd strax í desember að það mál gengi ekki eins hratt fram og menn höfðu áætlað. Niðurstaða átti að liggja fyrir um miðjan febrúar hvað varðar verðmat á bönkunum og uppskiptin á þeim. Sú niðurstaða liggur ekki enn fyrir. En strax í desember gerði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn athugasemdir við þetta. Þessi mál eru fyrst og fremst á herðum Fjármálaeftirlitsins og viðskiptaráðuneytisins og það hefur greinilega reynst þeim erfitt að koma þeim fram eins hratt og nauðsynlegt var.

Þetta var reyndar eitt af því sem hin nýja ríkisstjórn ætlaði að vinda bráðan bug að. Nú er komið fram yfir miðjan apríl og þar með orðin tveggja mánaða töf á því sem átti að gerast um miðjan febrúar og orðið alveg augljóst að þetta mun ekki gerast fyrr en í fyrsta lagi um miðjan næsta mánuð. Þá verður orðin þriggja mánaða töf á því og óhætt að segja að ríkisstjórninni hafi ekki tekist að hraða því að úrlausn yrði á þessu máli.