136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[11:40]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum nú í 3. umr. 409. mál þingsins um breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Eins og fram hefur komið fundaði viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. í gærkvöldi. Nefndarmenn voru sammála og sáttir við að fella niður þær breytingartillögur sem meiri hluti viðskiptanefndar lagði fram enda hafði mikið verið fjallað um þessa breytingartillögu á fundum nefndarinnar og ekki síst af hálfu þeirra gesta sem nefndin fékk.

Eins og fram hefur komið voru kröfuhafar afar ósáttir við breytingartillögurnar, sérstaklega ákvæði um að skilanefndirnar væru lagðar niður eftir sex mánuði, þ.e. svokallað sólarlagsákvæði á skilanefndirnar. Í breytingartillögunum sem meiri hluti viðskiptanefndar flutti, stendur í lið 2.c, með leyfi forseta:

„Við 3. tölul. bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvæði þetta fellur úr gildi sex mánuðum eftir gildistöku laga þessara og skulu þá þau verk sem skilanefndir hafa sinnt samkvæmt framansögðu falla til slitastjórna. Þegar slitastjórn hefur tekið við verkefnum skilanefndar getur héraðsdómari eftir beiðni slitastjórnar skipað fleiri menn í slitastjórn en þeir mega þó ekki vera fleiri en fimm.“

Framhaldsnefndarálitið sem hv. formaður viðskiptanefndar, Álfheiður Ingadóttir, greindi frá fyrr í dag, var afgreitt í gærkvöldi með öllum atkvæðum viðskiptanefndarmanna og í fullri sátt eins og áður kom fram. Frumvarpið sjálft fjallaði um nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Gert var ráð fyrir að skipuð væri sérstök slitastjórn sem hefur í raun og veru sömu heimildir um flest og skiptastjóri þrotabús. Slitastjórnin hefur það að markmiði, umfram það sem oftast er skilgreint í sambandi við skiptastjóra þrotabús, að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis, þar á meðal með því að bíða eftir endatíma krafna fremur en að koma kröfum í verð sem fyrst. Þannig er einnig kröfuhöfum eðlilega gefinn kostur á að lýsa kröfum sínum til slitastjórnar og geta kröfuhafar með samsvarandi hætti og við gjaldþrotaskipti gætt hagsmuna sinna og átt þess kost að bera ágreining um réttmæti krafna sinna og um ákvarðanir og ráðstafanir slitastjórnar undir dómstóla. Þannig er með frumvarpinu komið verulega til móts við þær athugasemdir sem kröfuhafar höfðu gert allt frá bankahruninu. Þeir gerðu miklar athugasemdir við slit bankanna og vildu gera ferlið allt gagnsærra.

Áður hefur komið fram að upphaf þess frumvarps sem við nú ræðum í 3. umr. á rætur að rekja til neyðarlaganna frá 6. október 2008, nr. 125/2008. Einnig á það sér rætur í breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki frá 13. nóvember 2008, það eru lög nr. 129. Í þeim lögum, frá nóvember sem hafa verið gagnrýnd — en ég endurtek það sem ég sagði í gær um þessi mál að nóvemberlögin voru sett í tímapressu þannig að það gafst ekki nokkur tími til þess sem eðlilegt hefði verið að gera í nóvember til þess að vel væri að þeim staðið. Það þurfti að fara í heildarendurskoðun á kafla XII um fjármálafyrirtæki þannig að heiðarlega og rétt væri að verki staðið. Nóvemberumræðan gaf okkur ekki kost á að fara í heildarendurskoðun. Þar með vil ég lýsa mig mjög sátta við nóvemberlögin sem sett voru undir svo mikilli tímapressu og kváðu á um greiðslustöðvun í 24 mánuði, að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun væri ráðinn af skilanefnd og málshöfðunarbann væri í gildi. Það var alveg ljóst þá þegar í nóvember að skoða þyrfti þetta. Ég er því mjög sátt við að við skulum nú upplifa að taka til 3. umr. í þinginu í dag þær breytingar og þær betrumbætur sem gerðar hafa verið í heildarendurskoðun á XII. kaflanum.

Viðskiptaráðuneytið fékk til þess þrjá sérfræðinga og verkefni þeirra var að skoða fjármálafyrirtæki heildstætt. Því verki var hrundið af stað strax 14. nóvember í kjölfar þess að lögin nóvember voru samþykkt 13. þess mánaðar 2008.

Til þessa verks fengust mjög hæfir einstaklingar og var það von manna í þáverandi meiri hluta viðskiptanefndar að verkinu mundi ljúka í janúar á þessu ári. Síðan hafa liðið nokkrir mánuðir og vegna tafa í þinginu á undanförnum vikum mætum við loksins til 3. umr. og lýsi ég mig mjög sátta við það. Í ferlinu var haft samráð við skilanefndir, við ráðgjafa þeirra, og var kynning haldin fyrir kröfuhöfum.

Afar margar umsagnir bárust um málið. Mig langar að vitna í umsögn frá laganefnd Lögmannafélags Íslands sem barst nefndinni í kjölfar þess að það er ritað, 22. mars 2009. Með leyfi forseta, kemur þar fram:

„Að mati laganefndar eru breytingar þær sem lagðar eru til með frumvarpinu á gildandi lögum til mikilla bóta en telja má ljóst að núverandi lagaumhverfi fjármálastofnana er engan veginn fullnægjandi til að leysa úr stöðu þeirra fjármálafyrirtækja sem starfa nú undir skilanefndum. Þannig eru lagðar til nýjar almennar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja þar sem almennar reglur gjaldþrotaréttarins eru lagðar til grundvallar, m.a. um innköllun, skiptastjórn og afstöðu til krafna, eftir atvikum með dómsúrlausn, en jafnframt tekið mið af sérstöðu fjármálafyrirtækja.“

Þeir sem fjölluðu faglega um frumvarpið voru á eitt sáttir um að það væri afar vandað og kominn tími til í ljósi þeirra aðstæðna sem við höfum upplifað í kjölfar bankahrunsins í október sl. að vera með þá löggjöf sem við getum farið með inn í fyrirsjáanlega framtíð og vonandi til lengri tíma, vandaða löggjöf sem tekur á þessum málum.

Þrátt fyrir að flestir umsagnaraðilar hafi verið mjög sáttir við frumvarpið faglega og efnislega ber vissulega að geta þess að kröfuhafar og reyndar starfsmenn skilanefnda voru ekki sáttir. Það sem þeir voru ekki sáttir við var áðurnefnt ákvæði um breytingar sem ég las upp varðandi svokallað sólarlagsákvæði, að leggja skyldi skilanefndirnar niður eftir sex mánuði.

Ég er með fyrir framan mig tölvupóst frá Virginiu Cooper þann 1. apríl sem talar fyrir hönd flestra þeirra kröfuhafa sem heimsóttu Ísland um þær mundir og hittust á óformlegum nefndarfundum kröfuhafa. Eins og áður hefur komið fram, m.a. í máli hv. þm. Gunnars Svavarssonar, eru fulltrúar kröfuhafanna ekki margir. Þeir voru flestir staddir hér á landi um mánaðamótin mars/apríl og funduðu með skilanefndum og forsvarsmönnum þeirra þriggja banka sem féllu í bankahruninu í október. Virginia Cooper segist tala fyrir hönd þeirra kröfuhafa og fulltrúa kröfuhafa sem mættir voru, um 50 manns. Hún segir að án undantekninga séu kröfuhafarnir og fulltrúar þeirra ósáttir við það ákvæði sem nú hefur verið gerð tillaga um að falli brott úr breytingartillögum sem meiri hlutinn hafði flutt áður, að þetta sólarlagsákvæði mundi vinna gegn þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram undanfarið hálft ár til þess að hámarka virði eignanna í þágu kröfuhafa og sannarlega líka í þágu okkar Íslendinga.

Mestar áhyggjur hef ég sem einstaklingur og sem Íslendingur af stöðu mála í Landsbankanum þar sem Icesave-reikningarnir eru beintengdir því að það takist að hámarka virði eigna gamla Landsbankans sem nú er í meðferð samkvæmt gildandi lögum og þá væntanlega þeim lögum sem Alþingi mun innan skamms samþykkja.

Náist að hámarka virði eigna Landsbankans — ég tek þetta sem dæmi — í samstarfi við kröfuhafa og skilastjórnir og -nefndir, má leiða líkur að því að við Íslendingar berum minni skaða og jafnvel engan fjárhagslegan skaða af Icesave. Það er óskandi því að þetta er eitt það mál sem hefur hvað mest angrað mig sem þingmann á yfirstöðnu þingi. Þótt margt hafi vissulega farið öðruvísi en ég hefði viljað eru þessi Icesave-reikningar alveg ótrúlega erfiðir okkur Íslendingum vegna þess að það er sannarlega ekki sök landsmanna hvernig fór.

Ég vona því að í kjölfar þess að við samþykkjum frumvarpið, sem er vonandi, og það verði að lögum, í dag eða fljótlega, haldi skilanefndirnar áfram samstarfi sínu við kröfuhafana og það takist að hámarka virði þeirra eigna sem að baki eru þannig að kröfuhafarnir geti skilið nokkurn veginn sáttir við Íslendinga. Vissulega tóku þeir áhættu eins og ljóst er en engu að síður skiptir miklu máli að ekki þurfi að selja eignir einmitt núna vegna þess að það er ekki nokkur markaður fyrir slíkar eignir.

Varðandi kröfuhafana og ábendingar þeirra um að þeir vildu gjarnan fá að halda áfram að vinna með skilanefndum vil ég taka fram að það er ósk mín og væntanlega okkar allra að skilanefndirnar ljúki störfum sem fyrst, þó innan þess markmiðs að hámarka virði eignanna sem að baki liggja vegna þess að það er engum hagur í því að draga þessa málsmeðferð. Það á að vera skynsemi í þessu. Skilanefndirnar eiga að starfa svo lengi sem þær þjóna því heildarmarkmiði að hámarka virði eigna bankanna og að vinna vel með þeim kröfuhöfum sem eiga kröfur í bú bankanna.

Að svo sögðu lýsi ég mig aftur mjög fylgjandi þeirri breytingu sem nú hefur orðið á milli 2. og 3. umr. á þessu frumvarpi. Ég var ein þeirra sem skrifuðu undir framhaldsnefndarálitið. Þar föllum við frá sólarlagsákvæðinu. Ég vona innilega að skilanefndirnar haldi áfram að vinna gott starf, að kröfuhafarnir vinni með þeim að því að fá sem mest fyrir eignirnar og að ljúka þessu ferli sem allra fyrst í eins mikilli sátt og verða má.