136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[12:16]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, formanni viðskiptanefndar, fyrir viðbrögð hennar við spurningum mínum. Það er auðvitað hárrétt ábending hjá henni að regluverk Evrópusambandsins, eins og ég vék raunar að í ræðu minni, gerði ekki ráð fyrir hruni af þessu tagi, ekki frekar en regluverk Evrópusambandsins gerði ráð fyrir því, þar sem fjallað er um innstæðutryggingar, að allir reikningar gætu fallið. Við erum hér því ákveðnir frumkvöðlar í að bregðast við í landslagi sem enginn hafði áður séð fyrir.

Þess vegna trúi ég ekki öðru — af því hv. þingmaður benti á að það væri kannski út af ástandinu hér og svo sem annars staðar í heiminum, eða sérstaklega í Evrópu, að þó að við séum eina landið þar sem allt hefur hrunið hafa bankar hrunið í öðrum Evrópulöndum og þess vegna sé Evrópusambandið að endurskoða þessar reglur og væri svo sem athyglisvert að vita hvort þeir hugsanlega horfi til þess með hvaða hætti við brugðumst við og hvort þeir geti þá eitthvað lært af því hvernig við þurftum að bregðast við. Því mér er alveg kunnugt um það, t.d. vegna tengsla sem ég hef við fólk sem er í skilanefndum, að það vinnur alveg ótrúlega vinnu. Það er algerlega á nýju landsvæði, ókunnugu og óþekktu sem við erum að reyna núna að setja reglur.

Því væri áhugavert að vita hvort við séum að miðla til Evrópusambandsins upplýsingum um það hvernig við brugðumst við og hvernig það hefur gefist. Því það hlýtur að gagnast fyrir það að vita hvernig það regluverk sem smíðað er sem viðbrögð við því ástandi sem hér var fúnkerar. Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir greinargóð svör.