136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[12:22]
Horfa

Björn Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka upp þráðinn sem frá var horfið í ræðum hv. þingmanna um stöðu okkar gagnvart hinu evrópska regluverki. Tilefni þess að ég stend hér upp núna er fyrst og fremst það að mér þóttu umræður í morgun, þegar verið varað fjalla um bankahrunið og ásakanir í garð okkar sjálfstæðismanna af því tilefni, vera svo fráleitar og einkennilegar að síðan þegar komið er að því að ræða þetta frumvarp þá sést enn betur hve fráleitt það er að kenna Sjálfstæðisflokknum sérstaklega um það hvernig farið hefur fyrir íslenska bankakerfinu. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Þau áföll sem dundu yfir fjármálamarkaði heimsins haustið 2008 leiddu til nánast algerrar lánsfjárþurrðar og höfðu í för með sér hremmingar fyrir íslensk fjármálafyrirtæki sem vart eiga sér fordæmi í öðrum löndum. Áföllin leiddu m.a. til þeirra óvenjulegra aðgerða að stjórnir þriggja stærstu íslensku viðskiptabankanna, og raunar einu viðskiptabankanna hér á landi sem höfðu á hendi slíka starfsemi, óskuðu eftir því við Fjármálaeftirlitið 7. og 8. október 2008 að það gerði ráðstafanir til þess að taka yfir stjórn bankanna. Alþingi hafði brugðist við áður með setningu laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, nr. 125/2008“ — þetta eru svokölluð neyðarlög — „en lögunum var ætlað að taka á mjög sérstökum aðstæðum á fjármálamarkaði þar sem við blasti hrun fjármálakerfisins. Þessar aðstæður voru með öllu ófyrirsjáanlegar þegar reglur XII. kafla laga nr. 161/2002 voru settar. Sá tími, sem var til ráðstöfunar við samningu frumvarps þess sem varð að lögum nr. 125/2008 var mjög skammur og mikil óvissa ríkjandi. Með lögunum voru gerðar ýmsar breytingar á lögum nr. 161/2002, einkum XII. kafla þeirra. Má segja að með þeim hafi verið brugðist við neyðarástandi, sem m.a. fólst í falli bankanna þriggja, svo sem áður getur.“

Fram kemur, virðulegi forseti, að hér var þannig ástand sem skapaðist á heimsmarkaði, fjármálamarkaði heimsins, haustið 2008 að það leiddi til nánast algerrar lánsfjárþurrðar á heimsmarkaði. Og að segja síðan í þingsal eins og gert var fyrr í dag að þetta sé eitthvert verk Sjálfstæðisflokksins að stofna til þessa ástands haustið 2008 er algerlega fráleitt. Ef það væri svo að þetta væri innlent vandamál og innlendar ástæður alfarið fyrir þessu hefðu menn að sjálfsögðu gripið á málinu með öðrum hætti en gert var með neyðarlögunum nr. 125/2008.

Neyðarlögin, virðulegi forseti, gera ráð fyrir því að skil séu á milli þeirrar starfsemi sem nú er í bönkunum og var færð úr þeim fjármálafyrirtækjum sem leituðu til Fjármálaeftirlitsins 7. og 8. október, þá var færður hluti af starfsemi þeirra yfir í þá banka sem nú eru starfandi, hina nýju banka, og skilinn eftir í svokölluðum skeljum eða leifar þeirra banka sem ekki var talið að ættu að fara inn í þá banka sem nú starfa. Það eru leifarnar sem við erum að fjalla um hér, leifarnar af þeirri bankastarfsemi sem var fram til haustsins 2008 og fram til þess tíma þegar Fjármálaeftirlitið tók að sér rekstur bankanna og skipti þeim upp með vísan til neyðarlaganna. Það er sá vandi sem við erum að glíma við, hvað gera á við þessar leifar, hvernig taka á á þeim málum og hvernig reynt er að bregðast við. Eins og hefur komið fram í umræðum í morgun er hugmyndin ekki síst sú að tryggja sem best að kröfuhafar sitji að sjálfsögðu við sama borð. Það er það sem er verið að fikra sig fram með og var gert með lögum í nóvember og nú er talið nauðsynlegt að breyta þeim lögum. Eins og fram kom hjá hv. formanni viðskiptanefndar má segja að þau lög séu gerð óvirk og þessi lög sem við erum að fjalla um í dag og eru nú komin til lokaafgreiðslu og góð sátt er um komi í staðinn fyrir hin.

Mér finnst að menn verði að hafa þetta í huga þegar fjallað er um málið og þegar litið er á þær umræður sem hér verða hvað eftir annað í þingsalnum um að það sé af innlendum orsökum, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið þannig að málum og átján ára stjórnarseta hans sem hafi leitt til þessa ástands sem við erum að fjalla hérna um og lýst er í greinargerð og kallað að það leiddi til nánast algerrar lánsfjárþurrðar á heimsvísu. Menn verða að hafa þetta í huga þegar um þetta er fjallað, að við erum að takast á við þennan vanda. Við erum að takast á við þær leifar sem urðu eftir í bönkunum sem leituðu til Fjármálaeftirlitsins 7. og 8. október.

Þá komum við að Evrópureglunum. Hv. þingmenn ræddu það og hv. formaður viðskiptanefndar telur að það sem við erum að samþykkja hér samrýmist evrópskum reglum. Hann sagði jafnframt, og það hefur komið fram, að þessar reglur gerðu alls ekki ráð fyrir því að bankakerfið hryndi með þessum hætti. Því stöndum við frammi fyrir, bæði þegar við erum að fjalla um það hvernig standa eigi skil gagnvart þessum kröfuhöfum og einnig þegar fjallað er um Icesave-málið. Þar erum við líka staddir, Íslendingar, í þeim sporum að evrópskar reglur gilda en þær eru þess eðlis að þær gera ekki ráð fyrir slíku hruni. Í því efni höfum við, að mínu mati, því miður ekki haldið nægilega vel á okkar lagalegu réttarstöðu.

Ef við getum með samþykktum hér á Alþingi, eins og við erum að ganga frá núna, breytt þessum lögum og sett hér reglur sem jafnvel er óvíst að verði samþykktar af evrópskum yfirvöldum, hvers vegna getum við gert það varðandi þennan þátt málsins en ekki þegar kemur að því að velta fyrir sér spurningunni um svokallaða Icesave-reikninga og þá stöðu sem við höfum lent í á þeim vettvangi. Spurningarnar sem ég hef viljað halda til haga í því efni eru: Höfum við staðið á nægilega traustum lögfræðilegum grunni að öllum ákvörðunum okkar varðandi samskipti okkar við aðrar þjóðir vegna Icesave-reikninganna? Eða samskiptum við Evrópusambandið?

Það er augljóst að Evrópusambandið var skelfingu lostið yfir þeirri stöðu sem hefði getað komið upp ef Íslendingar hefðu ekki gengist í ábyrgð fyrir Icesave-reikningunum með þeim hætti sem gert var. Evrópusambandið sá þá fram á að allt kerfið í kringum þessi fjármálafyrirtæki kynni að hrynja, sem við tökum sérstaklega á í umfjöllun um þetta frumvarp. Hv. þm. Dögg Pálsdóttir vakti máls á því hvort ekki væri unnið þannig að málinu að þeirri reynslu sem við erum að glíma við, eða þeim erfiðleikum, væri miðlað til annarra, hvort reynslunni af þeim erfiðleikum sem við erum að takast á við sé ekki miðlað til Evrópusambandsins og inn í hið evrópska kerfi þannig að það sé á fleiri stöðum en varðandi Icesave-málið að Evrópusambandið kom fram við okkur af ótrúlegri hörku og með lögfræðiálit að vopni, að það sé þá á fleiri sviðum en á því sem menn velti fyrir sér lögfræðilegum álitaefnum og komi þá líka á framfæri við Evrópusambandið sjónarmiðum sem eiga þangað erindi.

Þetta vildi ég segja hér því að ég tel að þetta mál sé stærra en það sem lýtur að þeim sérgreindu atriðum sem leiddu til þess að þetta fór aftur inn í nefndina. Nefndin stóð náttúrlega frammi fyrir því, með ákveðnum breytingartillögum sem hún hafði gert, að kröfuhafarnir töldu að farið væri fram á þann veg að dregið gæti úr því trausti sem ætti að ríkja til þess að mál færu á þann veg að kröfuhafar væru sannfærðir um að fyllsta jafnræðis yrði gætt eða þá að þeir væru að vinna með aðilum sem hefðu þá þekkingu og reynslu að þeir mundu sjá til þess að sem hæst verð fengist fyrir þær leifar sem eru í þessum skeljum bankanna ef ég má kalla það svo. Ég vil leggja áherslu á það, virðulegi forseti, hve mikilvægt það er að koma fram gagnvart kröfuhöfunum á þann veg að augljóst sé að unnið sé af sanngirni og sátt eftir því sem kostur er.

Sú staða getur komið upp að kröfuhafar sem telja á sér brotið og telja að í gildi séu reglur á Íslandi sem séu ósanngjarnar og hygli einhverjum umfram aðra geti hugsanlega borið slík mál undir dómstóla í öðrum löndum. Fordæmi eru frá Bandaríkjunum þess efnis að kröfuhafi sem á kröfu í bú í öðru landi geti leitað til bandarísks dómstóls og fengið álit hans á því hvort reglurnar sem gilda um úthlutun á eignum skuldarans séu með þeim hætti að þær séu sanngjarnar. Ef menn fá niðurstöðu fyrir bandarískum dómstól um að slíkar reglur séu ósanngjarnar — segjum að bandaríski dómarinn segi sem svo: Ja, þessar reglur eru þannig úr garði gerðar að það er augljóst að verið er að mismuna kröfuhöfum, t.d. eftir þjóðerni eða eftir einhverjum öðrum slíkum reglum — geta menn í krafti þess beitt þeim dómi, ekki endilega í viðkomandi landi, hér á landi, eða annars staðar þar sem reynir á slík mál heldur gagnvart viðkomandi fyrirtæki eða fyrirtækjum sem eru afleidd af því fyrirtæki eða rísa á grunni þess gjaldþrotabús sem til umræðu er.

Við erum búin að skipta bönkunum upp, annars vegar í þessi þrotabú og hins vegar starfandi einingar sem eru starfandi hér — menn geta þá, þegar þessar starfandi einingar eru að sinna viðskiptum á viðkomandi markaði, vísað í þennan bandaríska dóm, sem ég tek sem dæmi, og sagt sem svo: Hér er arftaki þessa þrotabús. Hann er hér í viðskiptum og nú vil ég í krafti þessa dóms ná í peningana mína. Það getur þá valdið þessum arftaka þrotabúsins erfiðleikum.

Þetta segi ég hér til að árétta þá skoðun sem hefur komið fram í máli formanns viðskiptanefndar, hv. þingmanns, og annarra þingmanna sem um þetta mál hafa rætt hversu mikilvægt er að gætt sé jafnræðis og sanngirni þegar fjallað er um réttarstöðu kröfuhafanna, hvort sem við erum þeirrar skoðunar að þeir eigi kröfur eða ekki, það er svo annað mál.

Hingað hafa komið erlendir menn og prófessorar, gjarnan er vitnað í prófessora þegar menn eru að fjalla um þetta, erlenda prófessora eða sérfræðinga — birst hafa greinar í blöðum og annars staðar þar sem menn hafa fullyrt að við ættum ekkert að sinna þessum kröfum. Við ættum að láta lánardrottnana, eða þá sem hafa treyst þessum fyrirtækjum fyrir fé sínu, sitja uppi með tjónið. Þeir hafi greinilega viljað taka mikla áhættu með viðskiptum við fyrirtæki sem stóðu ekki á traustari grunni en raun ber vitni, þeir verði sjálfir að sitja uppi með það, það sé ekki Íslendinga eða okkar skattgreiðenda að standa undir því.

Ég ætla ekki að fara út í þær umræður. Þær eru kapítuli út af fyrir sig, þær ábendingar sem við höfum fengið. Við erum hér að fjalla um frumvarp til laga sem snýst um réttarstöðu kröfuhafa og samskipti við þá og því vil ég segja að það er ákaflega mikilvægt að þessi lög standist, standist þá líka þessar evrópsku meginreglur og standist þá skoðun sem kröfuhafarnir geta látið málið fara í á öðrum vettvangi en hér. Yfirleitt er um að ræða alþjóðlegar kröfur og alþjóðleg viðskipti sem munu snerta traust í garð íslenskra fyrirtækja þegar fram líða stundir. Það getur varla verið leið okkar út úr þeim vanda sem við erum í núna að skapa þannig hindranir fyrir fyrirtæki sem vilja starfa hér á heilbrigðum grunni þegar fram líða stundir.