136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki alveg viss um hvert hv. þingmaður er að leiða þessa umræðu. En það er rétt að svo sem eins og einn sólarhringur í langri vinnu hv. viðskiptanefndar, í tengslum við frumvarp til breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands, var tekinn í að bíða eftir, skoða og greina fyrstu skýrslu sem fyrir lá á þeim tíma af hálfu Evrópusambandsins til undirbúnings á breytingu á regluverki hvað varðar bankastarfsemina.

Þar var Ísland, ef ég man rétt, nefnt í þrígang, íslenska dæmið. Það er staðreynd að þegar er farið að kenna það í hagfræði við erlenda háskóla hvað hér gerðist og hvernig bankahrunið varð. Ekki endilega það sem hér hefur verið rætt í morgun hvernig við höfum unnið úr því heldur hver aðdragandinn hafi verið. Við erum sjálf að setja upp rannsókn á því hvort þar hafi eitthvað saknæmt verið á ferð.

En ég ítreka það sem ég sagði áðan að viðvaranir, bæði til stjórnvalda og til bankanna sem slíkra, til Seðlabankans, og augljós hættumerki, sem sjá mátti í efnahagslífinu með viðvarandi öfugum viðskiptajöfnuði og vaxandi verðbólgu og mikilli skuldasöfnun bankanna erlendis, það hvernig þeir uxu íslensku hagkerfi að öðru leyti yfir höfuð — þessar viðvörunarbjöllur voru einfaldlega hunsaðar. Þess vegna, frú forseti, varð skellurinn svo harður. Þar þýðir ekkert fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hlaupast undan ábyrgð.