136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[13:31]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga, stjórnarfrumvarp um fjármálafyrirtæki og erum komin að umfjöllun um málið í 3. umr. eftir að hv. viðskiptanefnd hefur fjallað um það og unnið að mér sýnist mjög vel að yfirferð þess.

Rík ástæða er til þess, hæstv. forseti, að fara nokkrum orðum um þetta frumvarp, ekki síst vegna þess að í dag hefur farið fram mjög hörð umræða þar sem stjórnarliðar og einkum og sér í lagi hv. þingmenn, raunar fáir, úr flokki hæstv. fjármálaráðherra hafa leyft sér að nota umfjöllun um þetta mál og vísun til þess til sérstakra árása á Sjálfstæðisflokkinn. Þess vegna vil ég, hæstv. forseti, leggja nokkur orð inn í þessa umræðu því að ég lít svo á að þetta sé fullkomið ábyrgðarleysi þegar við erum að fjalla um eins mikilvægt mál og það frumvarp sem hér er til meðferðar og snýr að fjármálastofnunum okkar Íslendinga sem verið er að reyna að endurreisa og bregðast við því alvarlega og mikla hruni sem varð hjá bönkunum í kjölfar þess að hinn alþjóðlegi fjármálamarkaður nánast hrundi til grunna.

Meðal þess sem fær mig til að koma hingað upp er að ég tel nauðsynlegt að mótmæla þeim málflutningi sem ég nefndi áðan og gera athugasemdir við hann vegna þess að verið er að afvegaleiða almenning í landinu með þessari umræðu. Það er verið að afvegaleiða almenning í landinu og reyna að koma því inn hjá fólki að ástæðurnar fyrir bankahruninu séu allt aðrar en þær voru og að ekki hefði þurft að koma til þeirrar löggjafar sem hér er til meðferðar ef sjálfstæðismenn hefðu haldið með öðrum hætti á málum en raun ber vitni.

Hverjir hafa stjórnað okkar fallega landi á undanförnum árum? Vissulega hafa sjálfstæðismenn verið áhrifamiklir í því en við höfum verið í samstarfi við Alþýðuflokkinn, á árunum 1991–1995, síðan Framsóknarflokkinn og svo Samfylkinguna. Vinstri grænir þingmenn hika ekkert við, þrátt fyrir að vera í samstarfi við Samfylkinguna, að láta að því liggja að bankahrunið sé stjórnvöldum að kenna og þá væntanlega Samfylkingunni. Því má heldur ekki gleyma að Samfylkingin, þótt ung sé, er sprottin upp úr gamla Alþýðuflokknum og Alþýðuflokkurinn og Samfylkingin störfuðu með okkur sjálfstæðismönnum að stjórn mála í nærri sex ár. Ég trúi því ekki að þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar sem unnu með okkur sjálfstæðismönnum, þótt ýmislegt megi um það fólk segja, hafi ekkert lagt til verka. Öðru nær. Nauðsynlegt er að rifja þetta upp vegna þess að það á ekki að láta fólk komast upp með slíkan málflutning eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hafði uppi, hún er raunar ekki í salnum þessa stundina en hún hefur verið hér í sókn og vörn fyrir þessum sjónarmiðum vinstri grænna um að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn, oft og tíðum ansi einmana reyndar. Formaður þingflokks Vinstri grænna er hér öðru hvoru í gættinni en fyrst og fremst hefur það verið hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sem hefur staðið fyrir þessum stórundarlega málflutningi.

Aðeins að frumvarpinu en frumvarp það sem hér er til umfjöllunar er samið á vegum viðskiptaráðuneytisins og hæstv. viðskiptaráðherra mælti fyrir því á sínum tíma og hv. viðskiptanefnd hefur fjallað um málið. Það er alveg augljóst — en skýtur mjög skökku við og er algerlega í ósamræmi við vinnubrögð viðskiptanefndarmanna sem skrifa undir framhaldsnefndarálit án fyrirvara að mér sýnist, bæði stjórn og stjórnarandstæðingar — að þetta ágæta fólk í viðskiptanefnd hefur lagt sig fram um að vinna sem best að endurbótum á þessu frumvarpi en það komu athugasemdir frá m.a. skilanefndum bankanna og ýmsum kröfuhöfum sem leiddi til þess að hv. viðskiptanefnd tók málið til meðferðar og m.a. á milli 2. og 3. umr. Það er unnið mjög vel að þessu máli að mér sýnist á vegum þingsins þrátt fyrir að nokkrar breytingar hafi verið gerðar á frumvarpinu eins og verkast til.

Ástæður fyrir þessu frumvarpi, sem vonandi verður að lögum í dag, eru áföllin sem dundu yfir fjármálamarkaði heimsins haustið 2008. Þau áföll leiddu til nánast algerrar lánsfjárþurrðar og höfðu í för með sér hremmingar fyrir íslensk fjármálafyrirtæki sem vart eiga sér fordæmi í öðrum löndum. Það er nauðsynlegt að rifja þetta upp, jafnvel hér við 3. umr. verður að minna á þetta vegna þess, eins og ég sagði fyrr, að hv. þingmenn vinstri grænna og sumir þingmenn Samfylkingarinnar reyna að afvegaleiða almenning í landinu með þessari umræðu. Áföllin leiddu m.a. til þeirra óvenjulegu aðgerða að stjórnir þriggja stærstu íslensku viðskiptabankanna, og raunar einu viðskiptabankanna hér á landi sem höfðu á hendi slíka starfsemi, óskuðu eftir því við Fjármálaeftirlitið 7. og 8. október 2008 að það gerði ráðstafanir til að taka yfir stjórn bankanna. Alþingi hafði brugðist við áður með setningu laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, lög nr. 125/2008, en lögunum var ætlað að taka á mjög sérstökum aðstæðum á fjármálamarkaði þar sem við blasti hrun fjármálakerfisins. Þessar aðstæður voru með öllu ófyrirsjáanlegar þegar reglur voru settar um þau mál 2002. Ekki er ástæða til að rifja frekar upp aðdraganda málsins að öðru leyti en það þekkir nánast hvert mannsbarn hvílíkar afleiðingar það hafði þegar hin mikla lánsfjárþurrð í heiminum haustið 2008 leiddi til þessara hremminga allra.

Meginatriði þessa frumvarps er að lagt er til að settar verði nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Mjög hefur verið ýtt á eftir því að þingið kláraði þetta mál, lyki við að gera þessar breytingar. Stjórnendur fjármálafyrirtækjanna og þeir sem fara með málefni gömlu bankanna og þeirra fjármálafyrirtækja sem lenda í vandræðum, stjórnendur þar og þeir sem hafa haft með þau að gera, hafa lagt ríka áherslu á þessu yrði lokið. Reglur frumvarpsins gera ráð fyrir að fjármálafyrirtæki hafi sjálft frumkvæði að slíkri slitameðferð sem hér er verið að fjalla um en í bráðabirgðaákvæði er þó lagt til að Fjármálaeftirlitið geti einnig haft frumkvæði að því að taka yfir ráð fjármálafyrirtækis. Þetta kemur rækilega fram í greinargerð með frumvarpinu og síðan hefur frumvarpið tekið breytingum sem hv. þingmenn þekkja.

Í frumvarpinu er lagt til að um slitameðferðina gildi um margt sömu reglur og gilda um gjaldþrotaskipti. Gert er ráð fyrir að skipuð verði slitastjórn sem hafi um flest sömu heimildir og skiptastjóri þrotabús. Þar gildir þó sú aðalregla að slitastjórn skal hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækisins, þar á meðal með því að bíða eftir þörfum efndatíma á útistandandi kröfum þess fremur en að koma þeim fyrr í verð. Það á þó ekki við ef telja má að hagsmunir kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa eða stofnfjáreigenda séu meiri af því að ráðstafa slíkum réttindum á fyrri stigum til að ljúka megi slitameðferð. Allt eru þetta mjög viðkvæm og vandmeðfarin atriði en engu að síður geysilega mikilvægt að þetta sé skráð og skrifað skýrum stöfum í þessa löggjöf.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að gefin verði út innköllun þar sem kröfuhöfum gefst kostur á að vísa kröfum sínum til slitastjórnar og að afstaða verði tekin til þeirra, eftir atvikum með dómsúrlausn. Gerð er tillaga um að kröfuhafar geti með svipuðum hætti og tíðkast við gjaldþrotaskipti gætt hagsmuna sinna við slitameðferð og átt þess kost að bera undir dómstóla ágreining um réttmæti krafna sinna og um ákvarðanir og ráðstafanir slitastjórnar. Allt eru þetta aðgerðir sem mikilvægt er að hafa í huga þegar við fjöllum um frumvarpið.

Gerðar eru tillögur um að slitameðferð geti lokið með þeim hætti að fjármálafyrirtæki eigi þess kost, með samþykki Fjármálaeftirlitsins, að hefja starfsemi á ný eða þá að eigendum, hluthöfum og stofnfjáreigendum, verði greiddir hlutir þeirra í fyrirtækinu að greiddum lýstum kröfum á hendur því. Þá er einnig gert ráð fyrir að slitastjórn geti leitað nauðasamnings við kröfuhafa og efnt hann og í framhaldi af því geti fjármálafyrirtæki annaðhvort hafið starfsemi að nýju, með samþykki Fjármálaeftirlitsins, eða eignir þess verði greiddar hluthöfum eða stofnfjáreigendum. Loks er gert ráð fyrir að við tilteknar aðstæður sé slitastjórn skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi fjármálafyrirtækis. Allt eru þetta svo sem kunnuglegir textar en er hluti af mjög mikilvægri og nauðsynlegri lagasetningu til að tryggja umhverfi og endurreisn fjármálafyrirtækjanna og skapa skilyrði til þess að hægt sé að ganga frá þeim mikla vanda sem fjármálafyrirtækin höfðu ratað í og margir hafa átt um sárt að binda og tapað miklum fjármunum í tengslum við þessar hremmingar allar.

Ástæða er til að rifja þetta aðeins upp með þeim hætti sem ég geri hér. Það verður að undirstrika það mjög rækilega að við hljótum að leggja ríka áherslu á að gætt sé jafnræðis og sanngirni í allri meðferð þessara mála hjá einstökum fjármálafyrirtækjum þegar kemur að uppgjöri og því að meta skyldur þrotabúa gagnvart kröfuhöfum. Það er afar mikilvægt að um það gildi skýrar reglur.

Aðeins að lokum, hæstv. forseti. Ég hlýt að vekja athygli á því aftur hvernig stjórnarliðið og þá sérstaklega hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs reyna að nota þetta frumvarp eins og mörg önnur mál sem hér eru til meðferðar til árása á Sjálfstæðisflokkinn. Við sjálfstæðismenn höfum ekki hugsað okkur að taka því þegjandi og tökum á móti, enda um mjög ómálefnalegan málflutning að ræða. Við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á að ganga hreint til verks, það á bæði við um vinnu við lagasetningu og breytingar á lögum í þinginu sem og það að ganga hreint til verks gagnvart kjósendum okkar núna í aðdraganda kosninganna þegar við leggjum upp þær línur sem við viljum að kosið sé um. Við teljum að að varast beri að kjósa yfir sig vinstri stjórn sem er staðráðin, að því er virðist, að koma í veg fyrir uppbyggingu stóriðnaðar, ógnar afkomu og stöðu íslensks sjávarútvegs, leggur á ráðin um skattahækkanir og gefur litla von um að hér verði á næstu árum hægt að snúa til sóknar í atvinnumálum. Það ber að harma.

Hæstv. forseti. Ég vona að okkur takist að ljúka afgreiðslu þessa máls (Forseti hringir.) í dag svo þessi löggjöf geti tekið gildi og hægt verði að vinna eftir henni.