136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur.

410. mál
[14:17]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hér er á ferðinni mál sem hefur tekið nokkrum breytingum í meðferð þingsins og eins og kom fram áðan hefur það tekið umfangsmiklum breytingum í meðförum efnahags- og skattanefndar þar sem gerð var raunar grundvallarbreyting á málinu. Ég held að hér sé um að ræða gott mál frá ríkisstjórninni. Hér er verið að bregðast við vanda fjölskyldna í landinu, þeim vanda sem hefur steðjað að eftir þær efnahagsþrengingar sem hafa dunið yfir þjóðina og raunar dunið yfir allan hinn vestræna heim.

Engu að síður er það svo að hér er fyrst og fremst verið að bregðast við tímabundnum vanda. Ég á ekki von á því að þetta sé tillaga sem muni endilega standa til lengri tíma heldur er þetta hugsað til að bregðast við núna. Flestar þær hugmyndir og tillögur sem hafa verið til meðferðar í þinginu undanfarna mánuði hafa verið í þeim anda að reyna að takast á við bráðavanda fjölskyldna og heimila til að mæta óvæntum erfiðleikum, óvæntum uppákomum og jafnframt uppákomum og erfiðleikum sem við jafnvel sjáum ekki endilega fyrir núna hversu stórar verða. Það hefur verið ákveðinn vandi í meðförum þingsins nú þegar verið er að takast á við einstök mál. Í því sambandi vil ég t.d. nefna málið um svokallaða greiðsluaðlögun þar sem mikill tími hv. allsherjarnefndar fór í að gera sér grein fyrir því hverjum þetta úrræði í því tilviki gagnaðist. Í því tilviki er tekin sú afstaða að gera breytingu heilt yfir gagnvart þeim sem þetta úrræði nýtist en við vitum ekki enn þá hversu stór vandinn er og við sjáum það kannski ekki endilega alveg strax og að vissu leyti er mönnum ákveðin vorkunn að gera sér grein fyrir hver hann er. Í umræðum og þeim gögnum sem fyrir þinginu hafa legið, m.a. frá greiningaraðilum, seðlabanka og fleiri aðilum, hafa menn verið að reyna að átta sig á því hvaða fjölskyldur það eru sem eru í mestum vanda. Það sem er óvenjulegt við þetta ástand núna er að um leið og tekjumissir hefur háð fjölskyldum mjög, nú er það svo að 600 börn búa við það að báðir foreldrar eru atvinnulausir, að slík heimili munu án efa lenda mjög hratt í vandræðum og það eru ófyrirséðar afleiðingar af slíkum vandræðum fyrir börn og fjölskyldur sem í því lenda.

Í því árferði sem var fyrir hrun tóku menn hér á landi líka töluverða áhættu í skuldsetningu heimila. Tekjur voru háar, menn gerðust bjartsýnir og tóku óþarflega mikla áhættu í mörgum tilvikum sem mun hitta fólk mjög illa fyrir á mörgum stöðum. Þann vanda eigum við eftir að sjá miklu betur þegar líða tekur á árið. Við sjálfstæðismenn — og raunar trúi ég að allir í þessum sal styðji aðgerðir sem eru til að hjálpa fólki. Sú aðgerð sem hér um ræðir mun nýtast í lok sumars þegar verið er að gera upp skattaárið og þá hygg ég að mjög brýnt sé fyrir okkur að kortleggja betur og reyna að gera okkur betur grein fyrir því hvaða hópar það eru sem munu lenda í hvað mestum vanda.

Það liggur í augum uppi, eins og ég nefndi áðan, að þær fjölskyldur sem hafa orðið fyrir tekjumissi, orðið fyrir því að missa jafnvel atvinnu sína eins og ég sagði áðan að tekjur heimilisins hafa tapast að öllu leyti, að það er alveg ljóst að vandi þeirra fjölskyldna er mjög mikill. Það er líka um að ræða þar sem annar aðili hefur misst vinnuna eða jafnvel þar sem dregið hefur verið úr tekjum vegna árferðisins þar eru menn að reyna að bjarga sér frá mánuði til mánaðar og á meðan er hætta á því að vandinn safnist að einhverju leyti upp. Þess vegna held ég að mál af þessum toga þar sem verið er að bregðast við vaxtabótakerfinu geti gagnast þessu fólki og ég held að það sé mjög mikilvægt og það komi fram í umræðunni að hér er um að ræða mál sem getur gagnast verulega.

Í öllum þessum tilvikum verður samt að hafa í huga að við höfum verið að grípa inn í kerfið með tímabundnum aðgerðum á ýmsum stigum mála. Við höfum verið að bregðast við málum hvað varðar fullnusturéttarfarið. Við höfum verið að fresta nauðungaruppboðum, gjaldtökum og slíku til að reyna að lengja tímann sem fólk hefur til að bjarga sér og jafnframt því höfum við verið að grípa til ýmissa tímabundinna ívilnana til að hjálpa fólki, frú forseti, í þeim vanda sem að steðjar.

Það styttist mjög í kosningar og það er óvenjulegt að þing sitji núna þegar einungis 10 dagar eru til kosninga. Í því sambandi er fróðlegt að fylgjast með að allir stjórnmálaflokkar hafa sínar skoðanir og hugmyndir um hvernig megi bregðast við þeim vanda sem að steðjar. Við höfum í vetur eða núna eftir áramót trúi ég, rætt töluvert þá leið sem Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir, svokallaða niðurfellingarleið, þar sem 20% af höfuðstól skulda eru strikuð út, alveg án tillits til þess hvort viðkomandi fjölskylda sé í greiðsluvanda eða ekki. Mönnum hefur sýnst sitt hvað um þetta og áberandi hefur verið hvað þeim flokkum sem standa að ríkisstjórninni hefur þótt þetta óheppileg aðferð.

Ég get alveg fallist á að 20% niðurfellingarleið gagnvart þeim sem ekki ættu að þurfa á því að halda er kannski fulllangt gengið en þetta eru hins vegar alltaf hugmyndir inn í þann vanda sem hér er fram undan. Við sjálfstæðismenn höfum ekki talað fyrir þessari aðferð. Við höfum viljað líta svo á að okkar verkefni sé fyrst og fremst að reyna að létta á greiðslubyrði heimilanna og við höfum lagt fram hugmyndir um að á næstu þremur árum sé verulega dregið úr greiðslubyrði heimilanna og á móti lengt í lánum. Þetta hlýtur að þurfa að miðast við það hvernig staðan er á hverju einstöku heimili í landinu.

Þótt það sé flókið mál að líta á hvert einstakt tilvik og geti jafnvel verið kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð þá er það samt sem áður þannig að sérhvert tilvik er ólíkt öðrum og við sjáum það núna að ríkisbankarnir eru sumir hverjir farnir að velta fyrir sér hvernig þeir geta brugðist við þeim vanda sem hér er. Landsbanki Íslands hefur nú nýlega, eða Nýi Landsbankinn hefur nýlega lagt til leiðir handa fólki í greiðsluerfiðleikum þar sem þeir mæta fólki sem er í greiðsluerfiðleikum með því að bjóða því óverðtryggð lán. Ég hefði haldið að þetta væri eitthvað sem ríkisvaldið ætti að velta fyrir sér núna, hvernig hægt er að beita þessum nýju ríkisfyrirtækjum og hvetja þau til að mæta fólki í stað þess að boða oft mjög flókin úrræði með lagasetningu eins og við vorum að gera nýlega, t.d. þegar við vorum að breyta gjaldeyrisskiptalögunum. Það hefur verið mjög gott mál vegna þess að þar vorum við að bregðast við vanda sem er orðinn mjög stór, við erum að reyna að forða fólki sem komið er í þannig vanda frá gjaldþroti. En við hljótum að leggja áherslu á það hér að þau úrræði sem við erum með í boði handa fólki séu einföld og skilvirk. Þá held ég að fyrst við búum við það núna að sitja uppi með alla þessa ríkisbanka þá þeir reyni að hjálpa fólki í vanda með því að koma með úrræði handa fólki, m.a. að bjóða breytingu á lánum og slíka hluti. Fólk geti leitað til viðskiptabanka síns, til þjónustufulltrúans og fengið úrlausn mála sinna þar í stað þess að fara í gríðarlega flókið ferli annars staðar. Fyrir utan að það skortir enn verulega á að þau úrræði sem þegar hafa komið fram frá þessari minnihlutastjórn hafi verið kynnt með fullnægjandi hætti gagnvart fólkinu í landinu og það held ég að sé ákveðið verkefni út af fyrir sig fyrir þessa minnihlutastjórn að snúa sér að.

En ég vildi bara koma inn í þessa umræðu mjög stuttlega fyrst og fremst til að segja að hér er um að ræða mál sem getur gagnast fólki og ég held að það sé sjálfsagt og eðlilegt að menn greiði fyrir þeim málum sem eru af þessum toga.