136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[14:50]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg samþykkt það að efnahags- og skattanefnd hafi unnið gott og merkt starf hvað frumvarpið varðar. Ég er líka sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um það að nefndir eigi að breyta frumvörpum, þannig er það gert og í sjálfu sér er ekkert við það að athuga. Það er hins vegar nokkuð sérstakt þegar innan við helmingur af efnisgreinum viðkomandi frumvarps stendur eftir. Miðað við það sem kemur fram í framhaldsáliti nefndarinnar virðist sem kastað hafi verið til höndunum varðandi hina upprunalegu lagasmíð. Hv. þm. Pétur Blöndal má ekki taka það sem gagnrýni á störf nefndarinnar, þvert á móti, ég efa það ekki að nefndin hafi unnið gott starf.

Með sama hætti og ég tel starf þingnefnda mjög mikilvægt — og skipta máli við það að bæta þau frumvörp sem fram koma, gera þau að því sem getur kallast vönduð lagasmíð — tel ég að í umræðum á Alþingi, af því að þingmaður á jú einungis kost á því að kynna sér út í hörgul mál þeirra nefnda sem hann situr í, sé það skylda mín að leita upplýsinga eins og ég geri með því að taka málið til umræðu, velta fyrir mér þeim atriðum sem mér finnst máli skipta, velta því upp hvort við séum að ná þeim árangri sem til er ætlast. Við erum alveg sammála um það, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, að leita beri allra leiða til að koma í veg fyrir að fólk geti komið fjármunum sínum fyrir í skattaskjólum þannig að allir beri eðlilega hlutdeild í því sem um er að ræða af tekjum og eignum. Það er spurningin um að um vandaða lagasmíð sé að ræða og ræða mín og fyrirspurnir eru fyrst og fremst til þess að spyrja hvort algjörlega hafi verið (Forseti hringir.) gengið úr skugga um það hvað þetta mál varðar.