136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[14:54]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal fer sérstaklega fram á að menn virði ríkisstjórninni það til vorkunnar þegar um er að ræða óvandaða lagasmíð að um stuttan tíma hafi verið að ræða og nauðsynlegt hafi verið að hafa hraðar hendur. Ég skal líka taka undir með þingmanninum að þá reyni meira á þingnefndirnar.

Ég tel hins vegar ekki réttlætanlegt og tel ekki eðlilegt að ríkisstjórnin láti fara frá sér lagasmíð sem er ekki vönduð. Mér finnst það skipta miklu máli og það auðveldar að sjálfsögðu þinginu alla starfsemi sína ef vandað er til þeirra lagafrumvarpa sem ríkisstjórn setur frá sér. Ríkisstjórnin á að hafa, einmitt á því sviði sem hér er um að ræða, varðandi skattheimtu og álögur á borgarana, mikinn fjölda sérfræðinga til þess að aðstoða sig við að setja eðlilegar reglur hvað það varðar. Þar sem verið er að fara inn á svið þar sem reynir m.a. á alþjóðareglur og samspil fyrirtækja og aðila á innanlandsmarkaði og á erlendum markaði finnst mér mjög sérkennilegt að í upphafi hafi ríkisstjórnin ekki vandað betur til lagasmíðarinnar með þann sérfræðingahóp sem hún hefur til þess að skoða málin fyrir sig. Mér finnst mjög óeðlilegt að þetta skuli vera niðurstaðan, þ.e. að á milli 2. og 3. umr. málsins, við skoðun nefndarinnar á þeim tíma, skuli allt í einu uppgötvast að meira en helmingurinn af efnisákvæðum laganna getur ekki gengið upp.