136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

366. mál
[15:03]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, formanni efnahags- og skattanefndar sérstaklega fyrir þessi svör. Eins og ég gat um í ræðu minni efast ég ekki um það markmið sem stendur að baki þeirri lagasmíð sem hér er um að ræða. Ég er sammála því og legg áherslu á að mér finnst skipta gríðarlegu máli að slík lagaumgjörð sé hér á landi að við getum leitað allra leiða að þjóðarétti til þess að ná og koma á eðlilegum skattalögum hvað varðar þá sem sett hafa fyrirtæki sín eða eignir í skattaskjól og sækja þau þaðan með einum eða öðrum hætti, svo notað sé alkunnugt orðalag.

En ástæða þess að ég vakti máls á þessu var að mér fannst vegna orðalags víða í framhaldsnefndarálitinu að full ástæða væri til að spyrja um hvort hugað hefði verið að ákveðnum þáttum. Sérstaklega vísaði ég til 3. gr. frumvarpsins hvað þetta varðar, þ.e. hvort gætt hefði verið ákvæða þjóðaréttar í því sambandi.

Ég sagði, virðulegi forseti, að ég teldi þá hv. þingmenn sem hér hafa komið upp til andsvara við ræðu minni, alls trausts verða. Þeir hafa komið fram með sjónarmið og rök sem ég met fullnægjandi sem málsástæður fyrir því að eðlilegt sé að taka undir þau sjónarmið sem nefndin hefur gert að komi fram í framhaldsnefndaráliti sínu. Ég get því lýst yfir stuðningi við frumvarpið svo breytt sem nefndin leggur til.