136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég hef nefnt það áður í umræðum hér á Alþingi að fjármagn er mjög knappt. Ríkissjóður er rekinn með gífurlegum halla, 150 milljörðum í ár, og verkefni næstu þriggja, fjögra ára er að vinna í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að því að ná þeim halla niður.

Hér er eitt af þeim frumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn er að flytja sem eykur útgjöld ríkissjóðs, eykur þau á sama tíma og við þurfum að skera niður í heilbrigðiskerfi og úti um allt. Mér finnst þetta mjög misráðið, frú forseti, og ég hefði viljað sjá minnkun á listamannalaunum. Þó að menn séu með þau rök að þarna sé um atvinnusköpun að ræða gæti ríkið nákvæmlega eins aukið umönnunarstörf á spítölum og annars staðar í stað þess að skera þau niður, eða minnkað niðurskurðinn, við skulum orða það þannig. Ég tel ekkert ómerkilegra að sinna umönnun en að vinna við listamannastörf.

Ég hef mjög miklar efasemdir um þetta frumvarp, um að auka listamannalaun og tel að menn þurfi að fara miklu varlegar með fjármuni ríkissjóðs. Ef menn hafa virkilega peninga til ráðstöfunar, eins og ég gat um hér áðan um vaxtabæturnar, væri miklu skynsamlegra að beina þeim einmitt á þann stað þar sem þörfin er brýnust. Hvar skyldi þörfin nú vera brýnust, frú forseti, nema hjá þeim sem eru atvinnulausir? Þar er langmesta þörfin og langmesti vandinn. Ef menn hafa peninga til þess að setja úr ríkissjóði eiga menn að leggja þá í atvinnuleysisbætur, hækka prósentuna, lengja tímann sem menn geta verið á tekjutengdum atvinnuleysisbótum eða t.d. styrkja atvinnuleysingja til náms sérstaklega. Það er líka ein leið sem við getum notað ef menn skyldu hafa fundið einhvers staðar peninga í ríkiskassanum sem hægt er að eyða.

Að koma með hækkun á listamannalaunum hjá fólki sem jafnvel er í vinnu, er komið á sæmilega græna grein margir hverjir eða sumir hverjir, það finnst mér bara ekki vera nógu sniðugt í núverandi stöðu. Það getum við gert þegar við erum búin að koma atvinnulífinu aftur í gang og atvinnuleysið hefur minnkað niður í það sem við teljum viðunandi. Í mínum huga er kannski 1% til 2% atvinnuleysi eitthvað sem við sættum okkur við. Ég sætti mig ekki við 9% atvinnuleysi eins og er í dag og það fer vaxandi. Ég tel þess vegna að miklu skynsamlegra væri að nota þessa peninga til að endurhæfa eða endurmennta þá sem hafa orðið atvinnulausir, styðja við nýsköpun eða hækka atvinnuleysisbæturnar þannig að áfall á þær fjölskyldur verði minna en það sem nú blasir við.

Mér finnst hæstv. ríkisstjórn ekki vinna markviss, hún finnur ekki hvar vandinn er raunverulega til staðar og hún er ekki að leysa vanda þeirra fjölskyldna sem verst eru settar í þjóðfélaginu.