136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:24]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal og sérstaklega hvað það varðar þegar hann talaði um umönnunarstörf og ýmis önnur störf sem í sjálfu sér væru jafngild því sem um væri að ræða hvað þetta varðar, þ.e. að hér með þessu frumvarpi, í þeim tilgangi að efla listsköpun í landinu, er verið að leggja til að Alþingi veiti styrki sem þar um ræðir.

Miðað við það sem varaformaður Vinstri grænna sagði á framboðsfundi í Reykjavík í gær, hæstv. menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir, þar sem helstu bjargráð í því sem við erum að fást við í dag voru að hennar mati að lækka laun í landinu og hækka skatta, þá finnst mér það vera með nokkrum endemum að leggja fram frumvarp eins og það sem hér ræðir um, sem leiðir óhjákvæmilega til verulegs útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. (Gripið fram í.) Hæstv. menntamálaráðherra gat þess sérstaklega á umræddum fundi að það væri við gríðarlegan vanda að etja í ríkisfjármálum, svo mikinn vanda að það þyrfti að leita allra leiða til þess að ná því að stoppa upp í, eins og hún sagði, yfir 150 milljarða kr. gat í fjárlögum. (Gripið fram í.) Það liggur alveg fyrir að því miður var ekki tekið á vandanum með þeim hætti sem nauðsynlegt hefði verið að gera, að skera myndarlega niður til þess að ekki væri um að ræða —

Virðulegi forseti. Ég bið um að menn geti verið í samræðum annars staðar en í þingsal. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Einn fund í þingsalnum.)

Ég bið hv. þm. Mörð Árnason að reyna að haga orðum sínum og vera ekki afbrýðisamur þó að ég nýti mér það málfrelsi sem þingmönnum er áskapað. Ég veit ekki annað en að hv. þm. Mörður Árnason hafi gert það líka og mælst ágætlega alveg eins og mér, (Gripið fram í.) og ef hér er um einhverja afbrýðisemi að ræða verður bara að virða hv. þm. Merði Árnasyni það til vorkunnar, en ég læt mér það í léttu rúmi liggja.

Ég var að vísa til þeirra sjónarmiða sem komu fram hjá hv. varaformanni Vinstri grænna í gær um þann vanda sem við væri að etja og með hvaða hætti á að standa að málum með endurnýjuðu stjórnarsamstarfi Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, en það er með því að gagnvart öllu venjulegu fólki, gagnvart öllum venjulegum ríkisstarfsmönnum á að lækka launin eins og varaformaður Vinstri grænna talar um og það á að hækka skattana, þetta eru bjargráðin.

George Orwell skrifaði svo snilldarlega í bók sinni Animal Farm um að fyrsta boðorð væri að öll dýrin væru jöfn en síðan þegar fram í sótti og valdstjórnin varð meiri og þyngri kom viðbót við þetta ákvæði, að öll dýrin eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur. Það er einmitt það sem þetta frumvarp felur í sér að það er verið að taka út ákveðinn hóp sem á að njóta ákveðinna forréttinda, í sjálfu sér með ákveðnum jákvæðum formerkjum og hugsunarhætti, en samt sem áður eiga sum dýrin að vera jafnari en önnur. Á meðan aðrir þurfa að sæta kjaraskerðingu í framhaldi af því að um raunlækkun launa er að ræða vegna gengisfellingar, allt að um þriðjungi raunlækkunar launa, á í boði Vinstri grænna að lækka launin enn meir hjá opinberum starfsmönnum og þar til viðbótar á að hækka skattana og á sama tíma er verið að leggja til að ákveðinn hópur njóti ákveðinna forréttinda og hækkunar. Ég spyr: Er þetta eðlileg viðmiðun, er þetta eðlileg stefna?

Ég hlýt að segja að mér finnst það ekki og í sjálfu sér finnst mér þetta röng aðferðafræði, miðað við það krepputal sem kom fram (Gripið fram í.) og hefur komið fram hjá Vinstri grænum um það með hvaða hætti á að fara út úr þeim efnahagsþrengingum sem við er að glíma í landinu, að það eigi að fara út úr þeim með aukinni skattheimtu, sem mér finnst gjörsamlega fráleitt. Til þess að hjól atvinnulífsins geti snúist sem hraðast er einmitt spurningin um það með hvaða hætti við takmörkum afskipti ríkisvaldsins sem allra mest til þess að hægt sé að leysa úr læðingi þá krafta sem búa með þessari þjóð til þess að fólkið í landinu geti sýnt það sem í því býr til nýrra og atvinnuskapandi verkefna. Þau verða ekki til hjá valdstjórninni nema síður sé, og það er grundvallaratriði að hafa það í huga.

Mér finnst í raun skipta gríðarlega miklu máli að farið sé mjög varlega í alla útgjaldaauka. Við viljum öll að sjálfsögðu að ríkisvaldið geti tekið á þeim þáttum sem mestu máli skipta og geti stuðlað að þeirri velferð þar sem brýnast er að koma að. Það liggur alveg fyrir að þeir peningar sem teknir eru af einum þarf annar að borga. Það er bara einfaldlega sá hlutur sem við er að etja.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort það væri ekki ágætt fyrir þingmenn að taka eins og vikunámskeið, vikudvöl hjá innheimtumönnum ríkissjóðs til að átta sig á því með hvaða harmkvælum, iðulega, þeir fjármunir sem renna í ríkiskassann eru teknir frá skattgreiðendum. Spurningin er um það eftir slíka lexíu og slíkt nám hvort þingmenn væru jafnfúsir til þess að leggja til útgjaldaauka og ráðstafa ríkisfjármunum með jafnóábyrgum hætti og oft hefur verið gert í ríkisrekstrinum. Það finnst mér skipta máli, bæði hvað varðar tillögu eins og þá sem hér liggur fyrir svo og margar aðrar, að einmitt núna eins og árar í þjóðfélaginu þarf sérstaklega að gæta ráðdeildar og sparsemi. Mér sýnist ríkisstjórnin ekki gera það. Búið er að viðurkenna það í þeim orðræðum sem hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra hafa haft uppi, formaður og varaformaður Vinstri grænna, á síðustu dögum að vandinn sé gríðarlega mikill, það sé mikill fjárlagahalli og það verði að gera eitthvað í því. (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) Það er víst rétt að þau hafa sagt að mikill fjárlagahalli væri þannig, það liggur alveg fyrir, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Það liggur algjörlega fyrir að foringjar þínir og leiðtogar hafa ítrekað sagt þetta (Gripið fram í: Satt og rétt frá.) — satt og rétt frá, vissulega. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞBack): Ég við hv. þingmann um að ávarpa forseta.)

Já, virðulegi forseti. Ég tel og var þeirrar skoðunar að óvarlega væri farið í fjárlagagerð síðast, að mun meira hefði þurft að skera niður eins og ég rakti ítrekað í þingræðum og taldi að verið væri að fara mjög óvarlega fram eins og málin hafa síðan þróast og eru að þróast með miklu tekjuhruni ríkisins sem var fyrirsjáanlegt. Fyrirsjáanlegt var þegar efnahagshrunið varð áður en fjárlögin voru afgreidd að um mikið tekjuhrun ríkisins yrði að ræða, að sjálfsögðu. Búið var að kippa ákveðinni meginstoð atvinnulífsins í burtu, ljóst var að um vaxandi atvinnuleysi og rauntekjulækkun yrði að ræða. Af sjálfu leiddi að þar með væri minna sem kæmi í ríkissjóð með óbeinum sköttum og síðan kæmi til raunverulegrar lækkunar á tekjusköttum. Þetta lá allt saman fyrir. Þess vegna er spurningin hvort eðlilegt sé að þetta Alþingi, þegar kosningar eru fram undan, gangi frá og samþykki lög sem hafa í för með sér aukin útgjöld. Væri ekki eðlilegra að það Alþingi sem kosið verður eftir rúma viku hafi með slíka löggjöf að gera? Mér finnst að það væri eðlilegra. Starfstími þessa þings er að renna út og sýna verður eðlilega aðgát og virðingu fyrir því Alþingi sem tekur við og binda ekki hendur þess í of miklum mæli, sérstaklega ekki hvað varðar útgjöld. Þess vegna finnst mér eðlilegt og ég tek það fram, virðulegi forseti, að ég tel að það verði heldur enginn héraðsbrestur þó að þetta frumvarp verði ekki að lögum á þessu þingi en yrði tekið fyrir á væntanlegu sumarþingi sem talað hefur verið um að verði boðað. Þá gætu menn skoðað það í ljósi þeirra aðstæðna sem þá liggja fyrir hvernig staða ríkissjóðs er, og þá geta menn skoðað hvort forsendur eða aðstæður séu til þess að samþykkja frumvarp sem þetta.

Nú er það svo að enginn stjórnmálamaður er á móti því að listsköpun verði efld. Það er í sjálfu sér markmið sem ég reikna með að allir séu sammála um en spurningin er hvernig það er gert. Ég er ekki sammála því að við höfum endilega valið farsælustu leiðina í að efla listsköpun í landinu. Ég tel ekki að við höfum valið þá farsælustu leið með að æviráða ákveðna listamenn á listamannalaunum í stað þess að haga því með öðrum hætti, t.d. að haga styrkveitingum og framlögum frá hinu opinbera á grundvelli þeirra verka sem listamennirnir leggja fram til listsköpunar hverju sinni, þ.e. á ári hverju. Mér finnst það skipta máli að þjóðin lifi í núinu og gangi frá hlutum í núinu en ekki í þátíðinni, að stutt sé við bakið á ungu fólki, nýju fólki sem er að hasla sér völl. Þeir sem hafa komið list sinni vel og rækilega til skila ættu almennt að vera betur staddir til þess að þola og standa af sér hlutina. Ég tel að við höfum að mörgu leyti búið til umgjörð sem er ekki framsækin til aukinnar listsköpunar og nýliðunar og til að koma ungum listamönnum til virkilegrar aðstoðar. Ég get ekki séð að þetta frumvarp sé til þess fallið og mér finnst líka að þessir hlutir séu eiginlega komnir í fullstofnunarlegan farveg til þess að geta náð því raunverulega markmiði sem vafalaust að er stefnt af hálfu hæstv. menntamálaráðherra með framlagningu frumvarpsins.

Eins og ég gat um áðan, virðulegi forseti, liggur það fyrir sem stefna núverandi ríkisstjórnar, eftir því sem best verður séð, að það beri að vinna sig út úr vandanum hvað varðar ríkisfjármálin með því að hækka skatta á almenning í landinu og lækka laun ríkisstarfsmanna, jafnvel verulega. (Gripið fram í.) Við þær aðstæður — ég sagði jafnvel verulega, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, þannig að það sé alveg tekið rétt eftir. Ég átta mig náttúrlega ekki á því hvað hæstv. menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, átti við þegar hún talaði um að lækka launin, ég átta mig ekki á því hvað hún var að tala um að lækka launin mikið en það var sérstaklega tekið fram af hennar hálfu að það ætti að lækka launin. (Gripið fram í.) Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir getur þá væntanlega spurt varaformanninn sinn hvað hún hafi nákvæmlega átt við. Því miður er hæstv. menntamálaráðherra ekki í þingsalnum til þess að svara þeirri spurningu en ég gat ekki skilið annað miðað við það samhengi sem þetta var sett í en að það ætti þá að skila ríkissjóði því að um mun takmarkaðri útgjöld væri að ræða en ella. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir getur ef til vill skýrt þetta betur og gert betri grein fyrir þeim sjónarmiðum sem þarna komu fram.

Mér finnst skipta máli að jafnræðis sé gætt með borgurunum og það skiptir aldrei meira máli en einmitt núna.