136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:39]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það hryggir mig vegna kynna minna af hv. þm. Jóni Magnússyni að hann skuli lýsa lífsskoðun sinni og heimsmynd með þeim hætti í ræðustól Alþingis að fjölgun listamannalauna sé borin saman við jafnræði svínanna í Dýrabæ Orwells. Mér þykir þetta satt að segja ósmekklegra en svo að það sé Jóni Magnússyni sæmandi og ætla þess vegna sjálfur að fyrirgefa honum þetta vegna þess að allir eiga leiðréttingu orða sinna nema andskotinn, sagði Elías Mar.

Þó er næstum því jafnsorglegt að hlýða á vitnisburð um vanþekkingu hv. þingmanns um svokallaða æviráðningu og óskir hans um að verkin séu studd því að það er einmitt það sem er gert. Sótt er um þessi laun samkvæmt áætlun um verk og þau eru til ákveðins tíma og það er svo sem ekki furðulegt að höfundar fái þau og listamenn aðrir oftar en einu sinni.

Mig langar hins vegar að spyrja þingmanninn um það annars vegar hvað hann eigi við með því að launin séu hækkuð með þessu frumvarpi. Og hins vegar langar mig að vita hvort hann sé að lýsa hér skoðunum alls Sjálfstæðisflokksins, og kannski sérstaklega vegna þess að hv. þm. Jón Magnússon er eini fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hér í þingsalnum sem ekki er kostaður af FL Group og Landsbankanum en fyrra fyrirtækið lagði fram 30 milljónir til Sjálfstæðisflokksins árið 2007 og það síðara það sama, en það eru einmitt rétt rúmar 30 milljónir sem þessi verknaður kostar, að fjölga listamannalaunum í fyrsta sinn í 13 ár á Íslandi.