136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[15:53]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talar um að menn séu komnir beina leið í einhverjar kaldastríðsumræður en það er ekki rétt. (Gripið fram í.) Ég átta mig hins vegar á því að hinum gömlu félögum, hv. þingmönnum Merði Árnasyni og Álfheiði Ingadóttur, sárnar að það sé rifjað upp og vísað til þeirra sjónarmiða sem þau tóku með sér og börðust fyrir á sínum tíma. (Gripið fram í.) Það er nú einu sinni þannig að það gleymir enginn pólitískri fortíð og það flýr heldur enginn pólitíska fortíð sína. Hver og einn verður bara að sætta sig við að þannig er það í lífinu. Það er ósköp eðlilegt að fólk sé mismunandi stolt af mismunandi köflum hvað það varðar. Ég skil vel að hv. þingmenn Mörður Árnason og Álfheiður Ingadóttir kveinki sér undan því þegar vísað er til þess í nútímanum hvernig flett hefur verið ofan af þeirri pólitísku fortíð og hvernig draumarnir brugðust gjörsamlega.

Það er alrangt að verið sé að fara í einhverjar kaldastríðsumræður, það er bara verið að vísa til þeirrar spurningar hvort við viljum leyfa frelsinu að njóta sín, gefa einstaklingsfrelsinu og athafnafrelsinu svigrúm til að dafna, eða hvort við viljum reyra hlutina í forsjá valdstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Það er það sem mér sýnist vera að gerast í vaxandi mæli (Gripið fram í.) undir handhöfn þeirrar ríkisstjórnar sem hér er um að ræða, það er verið að reyra fleiri og fleiri hluti undir (Forseti hringir.) handhöfn valdstjórnarinnar sem mun leiða til alvarlegri (Forseti hringir.) efnahagsdýfu, kreppu og hruns en við höfum hingað til fengið að upplifa.