136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:23]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sturlu Böðvarssyni er mikið í mun að fara varlega og gæta að fjárlögum ríkisins á þessu ári og næstu árum. Undir það tökum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Við teljum að við séum að fara ábyrga leið með þeirri tillögu sem hér er lögð fram um að fjölga þeim einstaklingum sem geta fengið listamannalaun að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem segir til um í lögunum. Það er ekki gerð tillaga um að það geti hver sem er gengið inn og óskað eftir listamannalaunum. Listamaðurinn þarf að sýna fram á ákveðin verk, ákveðið ferli sem hann er að vinna að.

Það má líka minna á að fæstir listamenn geta í upphafi ferils síns haft viðurværi af listsköpun sinni. Það eru fáir sem hafa auðgast af listsköpun. Hinir eru allt of margir sem eiga erfiða ævi og þurfa að vinna aðra vinnu með.

Ég tel að það sé ábyrg fjármálastefna að vísa til fjárlaga 2010–2012 hvað þetta varðar. Það er ekki verið að hækka einstök laun listamanna. Það er verið að fjölga listamönnum sem hljóta laun og það er verið að fjölga störfum og vonandi að það verði meiri virðisauki af störfum þessara listamanna. Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji þessa leið ekki bæði ábyrga og eins heillavænlegri við þær aðstæður sem nú eru, að leita ekki til auðmanna og fyrirtækja sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur treyst á að gæfu til þessarar starfsemi, (Forseti hringir.) listastarfsemi í landinu þar sem þeirra sjóðir eru tómir eða þá að viðkomandi aðilar eru farnir á hausinn.