136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:28]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að langfæstir listamann hafa möguleika á því að sækja í sjóði eins og Atvinnuleysistryggingasjóð þar eð þeir hafa ekki verið á launuðum vinnumarkaði. Þeim eru því í raun og veru allar bjargir bannaðar.

Í því mikla efnahagshruni sem við stöndum frammi fyrir og erum að reyna á allan hátt að standa vörð um þá atvinnu sem fyrir er í landinu og leggja grunn að nýrri atvinnustarfsemi þá er listin ekki síður mikilvæg til að efla frumkvæði og efla atvinnu einstakra listamanna. Það tel ég mjög mikilvægt.

Hv. þingmaður telur líklegt eða lítur svo á að þetta séu kosningaloforð, að vera að lofa þessari fjölgun þar sem svo illa árar og gerir það næstu árin. En þá vil ég spyrja: Hvers vegna í ósköpunum var stuðningur til listamanna ekki aukinn á þeim tíma sem lýst hefur verið sem velmektarárum í Íslandssögunni undanfarinna ára? Af hverju var fjöldi þeirra sem hlutu listamannalaun látinn standa í stað þegar hér átti allt að vera í blóma? Var verið að treysta um of á styrki frá, eins og ég sagði áðan, auðmönnum og fyrirtækjum, ekki til listamanna sjálfra, heldur til hinna ýmsu listastarfsemi sem listamenn hefðu þá getað haft atvinnu af eða farið inn í ákveðin verk sem voru þá styrkt af einkaaðilum? Er þetta ekki brostið? Er ekki brostin sú sýn sem nýfrjálshyggjan innleiddi hérna, að treysta á styrki og framlög frá auðmönnum? Eða eins og var sagt hér í ræðu fyrir fáum árum, að fá molana af borðum (Forseti hringir.) auðmannanna inn í listalífið.