136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[18:35]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Já, það er nú alveg nauðsynlegt fyrir hæstv. forseta að minna hv. þm. Mörð Árnason á siði og venjur og þingsköp hvað varðar ávörp, en það var ekki aðalatriðið heldur að leiðrétta hv. þingmann. Ég er ekki að leggjast gegn breytingum á þessum lögum. Ég leggst gegn því að staðið sé þannig að þessu að það sé enginn grundvöllur undir útgjaldaaukningu, það eru ekki skapaðar tekjur til þess að hægt sé að fjölga. Það er gagnrýni sjálfstæðismanna.

Ég tala fyrir mig hvað þetta varðar og ég er alveg sannfærður um að það sama gildir um aðra hv. þingmenn sem hafa gert athugasemdir við þetta frumvarp. Við vörum við því að gefa væntingar um aukin útgjöld sem eru byggð á sandi. Það er vandinn.

Ég hef jafnframt bent á að ég er sannfærður um að hæstv. menntamálaráðherra gæti innan síns útgjaldaramma forgangsraðað með öðrum hætti en þeim að láta þetta vera afgangsstærð í útgjöldum sínum. Og vegna þess að hv. þm. Mörður Árnason hefur unnið í fjármálaráðuneytinu veit ég að hann áttar sig vel á því að það þykir ekki góð latína. Það vekur furðu að fjármálaráðherra skuli sætta sig við að flytja hér frumvarp sem gerir ráð fyrir því að gert sé út á framtíðina og skuldasöfnun við þær aðstæður sem við búum við í dag í efnahag þjóðarinnar. Það þýðir ekkert að vísa til þess að þetta sé allt saman sjálfstæðismönnum að kenna, núna er Samfylkingin við völd og styður Vinstri græna sem eru í (Forseti hringir.) menntamálaráðuneytinu. Ég vænti þess að það sé einlægur stuðningur (Forseti hringir.) eða er Mörður Árnason á móti því að hæstv. menntamálaráðherra fái fjármuni til að halda úti þessum auknu útgjöldum?