136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:09]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst leiðinlegt að hv. þm. Mörður Árnason skuli hálfpartinn vera að snúa út úr orðum mínum þegar ég var að tala um þetta ákvæði til bráðabirgða. Ég tók það sérstaklega fram að ég bæri mikla virðingu fyrir öldnum listamönnum og ber sérstaka virðingu fyrir því að þeir haldi áfram listsköpun sinni. Ég benti á það — hv. þm. Mörður Árnason virðist ekki hafa heyrt það — að þegar þessir einstaklingar verða 67 ára þá komast þeir inn á annað stuðningskerfi ríkisins sem gefur þeim u.þ.b. 150 þús. kr. á mánuði í stuðning, ætli það sé ekki það. Ég benti einfaldlega á að á þeim tímum sem nú eru, þegar við viljum hámarka hvernig stuðningur af þessu tagi nýtist, sæi ég ekki af hverju ástæða er til að halda þessum stuðningi áfram þó að fullt tilefni hafi verið til að gera það árið 1991. Það var einungis sú ábending sem ég var með. Það verður að virða mér það til vorkunnar að ég var hvorki í nefndarstarfinu sem fór fram né heldur við 2. umr. Það kann vel að vera að þær skýringar hafi komið en þá þekki ég þær ekki og þess vegna spurði ég eftir þessu.

Ég held að ég þurfi ekki að svara hv. þm. Merði Árnasyni um hvernig ég ætla að greiða atkvæði um þetta frumvarp. Það kemur í ljós við atkvæðagreiðslu. Það verður hér atkvæðagreiðsla og þá kemur í ljós hvernig ég greiði atkvæði. Ég er búin að segja frá því hvaða hug ég ber til þessa máls. Ég er búin að segja að ég styð listamannalaun og ég er sammála samflokksmönnum mínum um það að við viljum ekki hrófla við núverandi kerfi. Við teljum að fjölgunin sé hálfgert blekkingabragð á þessum tímum og það er það sem við erum að segja. Þannig ætla ég að svara hv. þm. Merði Árnasyni og hann á þá örugglega eftir að gera athugasemdir við ef honum líkar ekki svarið en fleiri svör fær hann ekki frá mér í bili.