136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[19:13]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg skelfilegt að mér skuli ekki takast að tala skýrar þannig að hv. þm. Mörður Árnason skilji. Ég veit ekki annað en hann sé sæmilega vel gefinn maður og ég tel mig sæmilega skýrmælta en samt tekst mér ekki að útskýra málið fyrir honum.

Það sem ég var að benda á varðandi þetta ákvæði til bráðabirgða — og það væri kannski ágætt að hv. þingmaður hlustaði og reyndi að skilja — er að það var sett inn árið 1991 um það að einstaklingar sem þá voru sextugir skyldu hafa þessa heimild. Ég var bara að spyrja af hverju verið er að viðhalda þessu ákvæði núna þegar þessir einstaklingar eru orðnir jafngamlir og raun ber vitni. (Gripið fram í.) Ég spyr líka hv. þingmann af því að það er hann sem er að snúa út úr orðum mínum og segja að ég sé svo vond við gamalt fólk. En það væri mjög fróðlegt að vita, og ég hef kallað eftir því að hv. formaður menntamálanefndar svari því, hvort þetta hafi komið til tals.

Ég man ekki betur en hv. þm. Mörður Árnason hafi tekið þátt í umræðunni í morgun þar sem var verið að tala um þetta skelfilega fjárlagagat sem er vissulega skelfilegt og okkur sjálfstæðismönnum er kennt um. Það er þess vegna sem mér finnst svo sérkennilegt að á sama tíma skuli flokkur fjármálaráðherra beita sér fyrir því að enn erfiðara verður að stoppa í gatið. Þetta er ekkert flókið og þetta er ekkert erfitt. Þetta eru bara ákveðnir útúrsnúningar hjá hv. þm. Merði Árnasyni. Ég held að hann sé mest að leika sér hérna, ég held að hann sé mest að stríða mér og það er allt í lagi, ég get alveg leyft honum það. (Gripið fram í.) En mér er fyrirmunað að skilja af hverju honum leikur hugur á að vita hvernig þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur tekið á þessu máli. Ég veit ekki til þess að hann eigi neina kröfu á því að vita hvort við höfum rætt það í þingflokki okkar. Hann verður bara að bíða í spenningi eftir að sjá hvernig við greiðum um þetta atkvæði.