136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

listamannalaun.

406. mál
[20:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sjálfstæðisflokkurinn telur sig hafa staðið vel að menningarmálum, að mati síðasta hv. ræðumanns. Þeim mun undarlegri var málflutningur hans þar sem hv. þingmaður hafði bókstaflega allt á hornum sér og fann þessu máli allt til foráttu, fór í langar skógarferðir til þess að útlista og setja í neikvætt samhengi hversu illur þessi málatilbúnaður væri, að mér heyrðist, allur saman.

Verið er að reyna að komast til móts við samfélag listamanna með því að gera fleirum kleift að njóta tiltekins stuðnings við listsköpun sína við erfiðar aðstæður í samfélaginu og eru nýttir betur þeir fjármunir sem til staðar voru. Í stað þess að hækka listamannalaun við færri er fleirum gefinn kostur á að njóta eitthvað lægri launa en ella væri og eru að verulegu leyti til fjármunir vegna þessara útgjalda. Það er engin dulur dregin á að það þarf að bæta einhverju við til þess að markmið frumvarpsins náist en það eru ekki háar fjárhæðir. Og að það standi einfaldlega réttar staðreyndir í kostnaðarmati um frumvarpið um að afla þurfi fjárheimilda á komandi árum fyrir þessu og að halli sé á ríkissjóði, sem þýðir að sjálfsögðu að ríkissjóður brúar bilið, mun ná endum saman með lánum — það gildir um öll útgjaldaverkefni af hvaða tagi sem þau eru. Það má segja sem svo að allur sá kostnaður sem bætt er við, af hvaða tagi sem hann er, sé hluti af hallanum af ríkissjóði.

Þannig er þetta mál einfaldlega vaxið. Spurningin er því þessi: Er hv. þingmaður andvígur þessari aðgerð? Vill hann bara að færri listamenn eigi kost á stuðningi og að fleiri séu á atvinnuleysisbótum eða að fleiri verði að leggja af listsköpun sína? Það væri fróðlegt að fá að heyra það, ef hv. þingmaður gæti aðeins komið að efni málsins.